ALDIN BIODOME

Hugmyndir um grænar gróðurhvelfingar í Laugardal

Grænn heimur á norðurslóðum – allan ársins hring er yfirskrift verkefnisins Biodome Reykjavík sem Hjördís Sigurðardóttir skipulagsfræðingur og stofnandi sprotafyrirtækisins Spor í sandinn stýrir. Hún vinnur að því að láta hugmyndir sínar um vistvænar gróðurhvelfingar í borginni verða að veruleika. Hugmyndafræðin gengur út á að byggður verði klasi af gróðurhvelfingum við hlið Laugardalslaugar og í þeim skapað vistvænt umhverfi. Skemmtifræðsla, upplifun og endurnæring eru lykilatriði í hugmyndafræðinni. Affallsvatn frá laugunum verður mögulega nýtt til upphitunar að hluta við ylrækt grænmetis og kryddjurta auk sameldis með fiskum. Gert er ráð fyrir að byggð verði ein stór miðhvelfing og nokkrar minni. Alls um 1500 fermetrar. Margs konar starfsemi getur farið fram í hvelfingunum en samkvæmt hugmyndunum verður meginstoðin ræktun, framleiðsla og sala matvæla auk samkomustaðar á grænu markaðstorgi sem opið er öllum. Í minni hvelfingunum verða matjurtirnar meðal annars framleiddar, þar verður ákjósanleg aðstaða fyrir umhverfisfræðslu og jafnvel fiðrildagarður. Að verkefninu hefur komið þverfaglegt teymi sérfræðinga og ráðgjafa sem hafa unnið að því að útfæra hugmyndina og finna henni farveg. Hjördís kynnir nú hugmyndina fyrir fjárfestum og á í viðræðum við Reykjavíkurborg um staðsetningu. Hjördís hefur óskað eftir að fá að kynna verkefnið fyrir hverfisbúum og stefnir að því að gera það síðar í mánuðinum. Sú kynning verður auglýst þegar nær dregur.

Hugmynd að gróðurhvelfingu við hlið Laugardalslaugar (mynd unnin af Hornsteinum arkitektum fyrir Spor í sandinn).

http://sporisandinn.is/assets/hverfabladid_okt.pdf