ALDIN BIODOME

Glermannvirki rís í Elliðaárdalnum

Nýtt kennileiti á miðju höfuðborgarsvæðinu. Verður fjölvirkur staður.

Bergþóra Jónsdóttir

[email protected]

Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fimmtudag að veita vilyrði fyrir byggingu gróðurhvelfinga í jaðri Elliðaárdals norðan við Stekkjarbakka. Það er gert með fyrirvara um samþykki deiliskipulags. Mannvirkið er um það bil 1.500 fermetra bygging sem mun falla vel inn í þann þróunarreit sem fyrirhugaður er í Elliðaárdalnum að sögn Hjördísar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins Spors í sandinn ehf., sem er framkvæmdaraðili verkefnisins Biodome Reykjavík. Þetta verður nýtt kennileiti á miðju höfuðborgarsvæðinu í góðri tengingu við stærstu útivistarsvæði borgarinnar. Þetta svæði er upphaf hitaveitunnar í borginni, virkjunarmannvirki eru til staðar í dalnum og segir Hjördís því mörg tækifæri felast í staðsetningunni. Samspil þess og tenging við náttúruna gefi möguleika á skemmtilegum útfærslum. Auk þess muni starfsemin hjálpa til sem leið í nútímalegri fasteignaþróun. Deiliskipulagsferli taki nú við og draumurinn er að hvelfingarnar muni rísa innan tveggja ára að sögn Hjördísar. Fólk upplifir annan heim „Hugsunin okkar er að fólk geti komið til okkar og upplifað stemmningu sumarsins allt árið um kring. Þetta verður fjölvirkur staður þar sem fram fer ræktun og sala á grænmeti og skyldri vöru, afþreying og upplifun sem nærir bæði sál og líkama og með ýmsum hætti hægt að skynja náttúruna. Sem dæmi að stunda jóga undir tónlist sem plöntur framleiða, hvernig megi hlaða síma undir rótum plantna og ýmislegt áhugavert og frumlegt,“ segir Hjördís. Hugsunin sé ekki einungis að hafa þarna markaðstorg og ræktun heldur einnig að hafa ráðstefnusali og fundarrými af öllum stærðum í boði fyrir ýmis fyrirtæki og einstaklinga. Hann mun því henta bæði sem afþreying og verslun fyrir gesti og gangandi en einnig sem vinnurými og aðstaða fyrir atvinnumarkaðinn. Markmiðið með staðnum sé að það skapist samfélag bæði þeirra sem standa að honum og þeirra sem sækja hann að sögn Hjördísar. „Við munum vera með sölutorg fyrir íslenska framleiðslu og munum leggja áherslu á lífræna ferska vöru og ræktun því við teljum mikla þörf á því að styðja við slíkt hér á landi,“ segir Hjördís

http://sporisandinn.is/assets/mbl2016-10-08.pdf