ALDIN BIODOME

Græn vin allt árið

Borgarráð samþykkti í gær að veita fyrirtækinu Spor í sandinn leyfi til að byggja lífhvolf í  jaðri  Elliðaárdalsins. Þar verður aðgangur að grænni náttúru allt árið. Vonir standa til að það verði opnað eftir tvö til tvö og hálft ár.

Samþykkt var að veita vilyrði fyrir 12.500 fermetra lóð við Stekkjabakka í jaðri Elliðaárdalsins með fyrirvara um samþykki deiliskipulags sem nú er á loka metrum. 

Ef allt gengur eftir verður byggt lífhvolf á lóðinni sem er 3.800 fermetrar. Lífhvolf er íslenskt orð yfir BioDom sem er gróðurhvelfing þar sem er hægt er að hafa aðgang að grænni náttúru allt árið. Hördís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Spor í sandinn segir að þar verði ýmiss konar starfsemi, ræktun, verslun, veitingastaðir og afþreying.  „Þetta er vin í borginni. Þetta er svona alveg brilljant hugmynd til að sýna hvernig við getum nýtt jarðvarmann á nýjan hátt.“

Gert er ráð fyrir, í aðalskipulagi, að græn starfsemi verði á svæðinu við Stekkjabakka.  Elliðaárdalurinn er vinsælt útivistarsvæði í Reykjavík. „Hefði ekki verið möguleiki að setja þetta upp einhverstaðar þar sem er ekki alveg náttúrulegt svæði og breyta því þá?  Jú að sjálfssögðu og það var það alltaf upphaflega hugmyndin að taka borgarumhverfið og breyta því í svona græna vin. Hins vegar er þetta í jaðri græns svæðis og á þegar röskuðu svæði.“

Hægt verður að kaupa matjurtir sem ræktaðar eru á staðnum, veitingastaðir framreiða þær – beint úr beði á diskinn og einnig verður þarna heilsueflandi starfsemi, jóga, hugleiðsla og margt fleira. Gert er ráð fyrir tveimur til þremur hvelfingum og verður hluti þeirra neðanjarðar.  

„Við sjáum fyrir okkur að við séum soldið að vinna með hæðina í landinu. Þetta er hérna á bakka þannig að við getum í raun og veru minnkað sjónræn áhrif ofan frá hverfinu séð með því að vinna með hæðarmuninn.“

Íslenskar fasteignir fjármagna verkefnið. Hjördís gerir sér vonir um að hægt verði að byrja að byggja á næsta ári.  „En plönin okkar eru að þetta opni eftir tvo til tvo og hálft ár.“

https://www.ruv.is/frett/graen-vin-allt-arid-0