SPURT OG SVARAÐ
Meðvitund, Jafnvægi & Sköpunarkraftur
HUGMYNDAFRÆÐIN OG STAÐSETNING
Frumkvöðull ALDIN Biodome er Hjördís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri.
Ég er drifin áfram af þeirri ástríðu að hafa áhrif til betri framtíðar. Ég er alin upp í íslenskri sveit, hef samt búið víða, bæði innanlands og erlendis. Ég man svo vel eftir vornóttunum í sveitinni þegar mamma mín vakti fram eftir til að sinna garðinum sínum. Man ennþá lyktina, friðinn og töfrana þá vornætur, bragðið af ný-uppteknum gulrótum og næpum sem ég borðaði beint upp úr garðinum. Ég hef alltaf sótt í náttúruna til að finna frið, ég elska plöntur og dreymir um að eiga gróðurhús.
Ég bjó í Hollandi í þrjú ár frá árinu 2010 - 2013. Þá var ég í meistaranámi í landslagsarkitektúr og skipulagi við Wageningen University en ég er löggiltur skipulagsfræðingur. Ég er einstæð móðir og ég settist þar að með börnin mín fjögur á meðan á náminu stóð. Þetta var mjög lærdómsríkur tími, bæði hvað námið varðar og því að kynnast nýju landi og menningu þess og að öðlast nýtt sjónarhorn á sitt eigið land úr fjarska. Sýn mín varð skýr á þau tækifæri sem felast í grænu orkunni sem við búum að og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir varðandi óstöðugt veðurfar, lífstíl og sjálfbærni.
Ég er með BS gráðu sem matvælafræðingur og sem umhverfisskipulagsfræðingur en lokaritgerðinni minni í meistaranáminu reyndi ég að tvinna þessum faggreinum saman með því að skoða dæmi um borgarbúskap. Í þeirri vinnu kviknaði fyrst hugmyndin að ALDIN Biodome verkefninu sem hefur síðan þróast og þroskast. Sjálfbært skipulag, stytting flutningsvegalengda og hugmyndafræði hringrásar, þar sem allt efni er nýtt, voru áherslurnar í náminu, ásamt því að stuðla að líflegu og heilsusamlegu umhverfi fyrir manneskjuna.
Ég vann í rúmt ár á teiknistofu eftir að ég kom heim og þá mest að verkefnum sem tengdust skipulagi á áfangastöðum ferðamanna. Þá varð mér ljóst hve mikill vöxtur var í ferðamannaiðnaðinum sem í dag er ein mikilvægasta atvinnugreinin á landinu.
Eitt leiddi af öðru og ég var farin að vinna við að þróa verkefnið síðla árs 2014 og sótti um í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík árið 2015 með hugmyndina og fyrirtæki mitt Spor í sandinn ehf. Á því ferðalagi kynntist ég lykilfólki sem vinnur enn að verkefninu í dag. Við hófum þá samtal við Reykjavíkurborg um mögulega staðsetningu fyrir verkefnið en vilyrði fyrir núverandi staðsetningu fékkst haustið 2016 við Stekkjarbakka með fyrirvara um samþykki deiliskipulags, en formleg deiliskipulagsvinna fór af stað í byrjun árs 2017 í samstarfi við Reykjavíkurborg og Landslag teiknistofu.
Verkefnið hlaut tilnefningu til Evrópskra nýsköpunarverðlauna (EUWIIN/GWIIN) vorið 2017 og sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi nýsköpun með samfélagsjákvæð áhrif. Í kjölfarið hófst samstarf við WilkinsonEyre arkitekta í London, sem eru leiðandi hönnuðir á sviði loftslagsstýrðra mannvirkja. Þá hefur úrvalshópur ráðgjafa gengið til liðs við verkefnið. Bæði mannvirki og starfsemi ALDIN eiga að standast ströngustu kröfur varðandi sjálfbærni og heilsusamlega eiginleika (BREEAM og WELL).
Fjöldi kynninga og vinnustofur hafa verið haldnar fyrir samstarfs- og hagsmunaaðila síðastliðin ár. Við þróun hugmyndafræðinnar hefur verið hlustað á ábendingar og brugðist við því með nýjum og bættum útfærslum. Mikilvægum áfanga var náð er deiliskipulagið var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur þann 4. júlí 2019. Þá voru liðin fjögur og hálft ár síðan ég steig mín fyrstu skref inn í verkefnið og tvö og hálft ár voru liðin frá því að skipulagsvinnan hófst.
Gert er ráð fyrir að vinna við framkvæmdir geti hafist árið 2020 og að ALDIN Biodome opni fyrir gesti rúmum tveimur árum síðar.
Það má að mörgu leiti lýsa ástandi mannkynsins í dag þannig að það hafi orðið rof á milli manns og náttúru, maðurinn stendur einn og ótengdur náttúrunni í borgarumhverfinu. Röskun á jafnvægi milli manns og náttúru hefur leitt til loftslagsbreytinga, óhollra neysluvenja og lífstílstengdra sjúkdóma.
Breytingar á veðurfari og loftslagi koma niður á vistkerfum og þar með lífsgæðum. Þessi umhverfis- og lífstílsvandi er sprottinn af sömu rót. Ofþyngd og andlegir sjúkdómar eins og streita og þunglyndi er algengur vandi í vestrænum samfélögum. Nútímamaðurinn sinnir mörgum hlutverkum á degi hverjum og þarf að samþætta líf sitt. Oft reynist erfitt og jafnvel yfirþyrmandi að koma öllu heim og saman og um leið að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða.
Þrátt fyrir ómetanlegar auðlindir í formi sjálfbærra orkugjafa og hreinleika í margskonar skilningi eru Íslendingar í samanburði við aðrar þjóðir neyslufrek þjóð og með hvað stærst vistspor þjóða á heimsvísu samkvæmt aðferðarfræði ‘Global footprint network’. Að meðaltali er vistspor Íslendings nálægt því að vera tvöfalt á við meðal Evrópubúa. Ómeðvitað bruðl er talin veigamikil ástæða fyrir þessari stöðu (samkvæmt Sigurður E. Jóhannesson, umhverfis- og auðlindafræðingi 2017).
Algengasta dánarorsök Íslendinga eru krónískir sjúkdómar sem mætti draga úr með breyttum lífstíl m.a. með léttara fæði og aukinni hreyfingu. Nú er svo komið að 27% þjóðarinnar er of þung samkvæmt grein í Læknablaðinu (júní 2019). Og samkvæmt upplýsingasíðu Landlæknisembættisins (Heilsuvera.is) er stress og þunglyndi algengt meðal barna og ungmenna, en þar kemur fram að fjórðungur ungs fólks upplifir kvíða í sínu lífi og 6% þeirra eru með alvarleg einkenni. Einmanaleiki er einnig algengt vandamál einkum meðal eldri borgara.
Meginmarkið ALDIN Biodome er að efla tengsl við náttúruna og stuðla að náttúruvernd, aukinni sjálfbærni og heilbrigði.
ALDIN Biodome er spennandi nýr áfangastaður í borginni sem felur í sér endurnærandi upplifun fyrir líkama og sál bæði fyrir gesti og starfsfólk. Hollar matjurtir og gleðjandi fegurð í umhverfi sem veitir innblástur og stuðlar að jafnvægi í líf fólks. Á einum stað undir sama þaki er hægt að sinna daglegum athöfnum og njóta augnabliksins. Móðir náttúra er töfrum gædd og með aukinni nánd við hana eykst meðvitund okkar á umhverfinu, vernd þess og sjálfbærum lífstíl.
ALDIN Biodome mun rísa miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu í jaðri Elliðaárdals, þar sem aðgengi er auðvelt eftir vistvænum leiðum með göngu- og hjólastígum í græna neti borgarinnar. Þannig verður ALDIN tilvalinn áningarstaður fyrir fólk sem á leið hjá bæði fyrir þá sem stunda útivist í dalnum eða þá sem fara um til og frá vinnu. Samspil milli starfseminnar og nærumhverfisins hvetur til hreyfingar og upplifunar af náttúru, hinnar íslensku útivið og þeirrar framandi innandyra sem einkum verður aðlaðandi athvarf yfir vetrartímann.
Með borgarbúskap styttast flutningaleiðir til neytandans og býður upp á ferska vöru beint á diskinn. Aukið framboð og neysla á matjurtum er jákvæður þáttur í margs konar samhengi t.d. út frá minnkun kolefnisvistspors matvæla og til að stuðla að meiri hollustu.
Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á jákvæð áhrif náttúrunnar á heilsu og vellíðan og eru læknar og heilsuráðgjafar í vaxandi mæli að ávísa græna lyfseðlinum fyrir skjólstæðinga sína. Sem dæmi bætir græn náttúra andlega líðan, eykur sköpunargleði og afköst.
Í ALDIN verður til fjöldi starfa á sviði mannræktar, garðyrkju og ýmiss konar þjónustu og fræðslu. Þar verður uppbyggjandi vettvangur fyrir nema í starfsnámi á þessum sviðum. Starfsemin mun viðhalda og skapa hagsæld fyrir samfélagið og borgina.
Gert er ráð fyrir lóð undir ALDIN Biodome í Reykjavík, í suðurjaðri Elliðaárdals norðan Stekkjarbakka á svæði sem kallast Langagróf. Sjá má afmörkun lóðarinnar (nr 3) í skipulagsgögnum sem samþykkt voru í borgarráði 4. júlí 2019. Hinn gamli Vatnsveituvegur liggur að Stekkjarbakkanum, sunnan þess svæðis sem lóðin skilgreinist og markar því lóðina þeim megin. Hár bakki er við nyrðri lóðamörkin og snarbrött malarskriða en við austurmörk lóðarinnar eru samfélagsgarðar Garðyrkjufélags Íslands. Opið grænt svæði er við vesturmörk lóðarinnar og lækjarsytra í lægð. Bakkinn eru fornir sjávarkambar og malarruðningur sem ísaldarjökull mótaði.
Um tíma var bakkinn nýtt sem malarnáma til vegagerðar í borginni en einnig voru á svæðinu þrjú býli áður fyrr; Hraunprýði, Laufás og Dalbær. Í meðfylgjandi loftmyndaseríu má sjá hvernig svæðið hefur breyst í tímans rás, mannvirki Veitna lögð smám saman gegnum svæðið ásamt því að þar eru heitavatns borholur og malarplön tengd þeim (Vatnsveituvegurinn er sýnilegur á öllum myndum og því góður viðmiðunarpunktur). Með tímanum hurfu býlin en Laufás var síðasti bærinn sem var rifinn árið 2013 en hann stóð næst Stekkjarbakka á lóðinni. Í dag má sjá nokkuð há tré þar sem áður var húsagarður Laufáss. Gróður hefur náð sér upp að einhverju leyti og sum staðar fallegur svörður með mosagróðri.
Veðursælt er á staðnum og fallegt útsýni upp eftir dalnum til austurs, yfir til Esju í norðri og í átt að miðborginni í vestur. Kappkostað verður að varðveita gróður og græða upp ógróin svæði.
EIGENDUR OG FJÁRMÖGNUN
Félagið er ennþá að mestu leiti í eigu upprunalegra eigenda. Hjördís Sigurðardóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri á 84% í félaginu, Þá á félag í eigu Ágústs Freys Ingasonar, 7% Startup-Reykjavík Invest 6%.
Verkefnið er einkaframtak og nýsköpunarverkefni. Fyrstu árin í þróunarvinnunni hefur verkefnið verið fjármagnað með miklu vinnuframlagi og fjárfestingu stofnenda og samstarfsaðila. Fjármögnun stendur yfir en vilyrði hefur fengist fyrir hluta stofnfjárfestingarinnar. Það skal einnig tekið fram að fjöldi aðila og einstaklinga hafa lagt sitt af mörkum í þróun verkefnisins sem er verðmætt í sjálfu sér.
Hafðu þá samband við framkvæmdastjóra félagsins með því að senda tölvupóst á [email protected]
SKIPULAGSMÁL
Ítarlegar upplýsingar undir hlekknum hér að neðan
Borgargarðurinn Elliðaárdalur og þróunarreiturinn við Stekkjarbakka
Ítarlegar upplýsingar undir hlekknum hér að neðan
Spurt og svarað um skipulagið við Stekkjarbakka
Ítarlegar upplýsingar undir hlekknum hér að neðan
Spurt og svarað um myrkurgæði í Elliðaárdalnum
AÐSTOÐ OG VINUR ALDIN BIODOME
Þú skáir þig á póstlistann og færð tilkynninagar frá okkur þar sem þér er boðið að taka þátt í samræðutorginu þar sem við ræum saman um þau mál er varða ALDIN og starfsemi þess sem brenna á okkur.. Þú verður síðan sjálfkrafa með ársáskrif að ALDIN Biodome og þar með Vinur ALDIN fyrsta árið.
Með því að taka virkan þátt í samræðutorginu og koma með hugmyndir og tillögur sem styðja við og bæta ALDIN. Við viljum heyra frá Vinum ALDIN.
PÓSTLISTI
Við sendum út póst til að segja helstu fréttir af framgangi verkefnisins og mögulega til að kalla eftir hugmyndum eða endurgjöf. Hér er getur þú skrá þig á póstlista og fengið sendar fréttir.