UM ALDIN Biodome

Meðvitund, jafnvægi & sköpunarkraftur

HUGMYNDAFRÆÐI

Meginmarkmið ALDIN Biodome er að tengja fólk við náttúruna og stuðla að heilbrigðum lífsstíl, allt á sjálfbæran og arðbæran hátt. ALDIN verður einstakur samkomustaður í hjarta borgarinnar og nýtir ótrúlegan kraft „grænnar orku“ til að veita róandi upplifun í allra veðra von. Í ALDIN er stunduð ræktun í víðum skilningi. Græn orka er nýtt til matjurtaræktunar og í gróðursælu umhverfi er boðið upp á aðstöðu til skapandi athafna og mannræktar. ALDIN endurvekur skilningarvitin til meðvitundar um persónulegt sambandi mannsins við sköpunarkraft náttúrunnar og kemur þannig jafnvægi á lífið.

ALDIN Biodome er borgargarður sem tengir manneskjuna við náttúruna á nýjan hátt. ALDIN byggir á sjálfbærum borgarbúskap og býður upp á heilandi upplifun innan um gróður allan ársins hring. ALDIN miðar að því að bjóða gestum tíma og rými til að hlúa að innra sjálfi sínu, ígrunda og meta náttúruna, sem er mikilvægur kjarni í gildum Íslendinga. 

ALDIN Biodome verður staðsett miðsvæðis, hannað þannig að mannvirki falli inn í hið náttúrulega landslag svæðisins. Þar verður hægt að nýta tímann til íhugunar, hugleiðslu, fræðslu, versla með lífrænan mat,  njóta matar á kaffihúsum og veitingastöðum, taka þátt í viðburðum, sitja og vinna (og fá innblástur), eða einfaldlega að rölta um og dást að fjársjóðum náttúrunnar.

ALDIN eflir getu okkar til þess að skynja og skilja samhengið á milli náttúrunnar og afurða hennar á heilsu, lífsgæði og á innsæi okkar.  Með jarðvarmanum er skapað suðrænt loftslag þar sem framandi plöntusamfélag mun þrífast, sem annars væri ekki mögulegt í íslensku loftslagi. Gestum býðst að njóta fjölbreyttrar þjónustu sem samþætt er inn í starfsemi ALDIN. 

Aðalstarfsemin fer fram undir visthvelfingum sem skiptast í þrjú meginrými. Það fyrsta sem gestir ganga í gegnum er Dalbær sem er garðyrkjurými og torg sem verður að mestu undir torfþaki. Þaðan er gengið inn í tvö mismunandi loftslagsstýrð visthvolf, annars vegar Laufás sem er með miðjarðarhafsloftslagi og hins vegar Hraunprýði með hitabeltisloftslagi.  Á útisvæði ALDIN er áherslan lögð á samspil milli þeirrar náttúru sem fyrir er og gróðursetningar á úrvali plantna sem falla vel að umhverfinu og býður upp á dvalar- og leiksvæði.  

Í Dalbæ er ræktunarrými í miðju torgsins sem gefur innsýn í ræktunaraðferðir og uppskeru. Áhersla er lögð á að gestir upplifi allt ræktunarferli borgarbúskaparins af beði á borð, fyrsta flokks hollustu og ferskleika. Þar er markaður sem býður upp á matjurtir úr ræktunarrýminu og græna sérvöru.  Á svæðinu er aðstaða til fræðslu fyrir hópa, veitingastaður og kaffihús.  

Í Laufási og Hraunprýði eru matjurtaskógar sem innihalda stórbrotið safn plantna og jurta sem fela í sér forvitnilegan fróðleik framandi landa.  Þar er boðið upp á afþreyingu í bland við upplifun af umhverfinu. Í Laufási er hægt að finna sér stað undir trjákórónum til að vinna og halda fundi. Í Hraunprýði er aðstaða til að stunda jóga og hugleiðslu. Hægt verður að leigja hvelfingu eða hvelfingarnar undir viðburði svo sem brúðkaup og ráðstefnur.

ALDIN er fyrir alla, íbúa í næsta nágrenni og innlenda sem erlenda gesti.  ‘Vinir ALDIN’ geta komið reglulega í gróðursæluna og ferðamenn upplifað hvernig jarðvarminn er nýttur til að skapa þessa nýju heilsulind sem býður upp á matjurtaskóg og skógarböð.  

ALDIN er grænn griðarstaður í landi elds og íss.

Að sameina einkalíf og vinnu
Þegar þú gengur inn i ALDIN Biodome kemur þú inn í nýjan heim með annarskonar loftslagi. Þú getur sest á veitingastaðinn inni í Dalbæ sem býður upp á freistandi grænkeramat beint af beðinu og þú getur tekið þátt í jógatíma í hitabeltisloftslagi Hraunprýði. Af því þú náðir ekki að klára verkefni dagsins í vinnunni þá finnur þú aðlaðandi stað undir tré í miðjarðarhafsloftslagi Laufáss og notar eina til tvær klukkustundir til að vinna. Þú upplifir þig endurnærða/n þegar þú ferð heim.
Fjölskyldan og samvera
Það er laugardagsmorgunn og fjölskyldan ákveður að fara í ALDIN Biodome til að versla vikuskammtinn af ferskum matjurtum. Börnin geta leikið sér í náttúrunni á meðan foreldrar fara á markaðinn að velja í matinn. Síðan ákveða þau að fara saman með krökkunum inn í Hraunprýði þar sem þau upplifa umhverfið og börnin geta farið í gegnum þrautabraut, sem er hangandi net sem einnig notast sem hengirúm. Í sandinum geta þau leikið sér berfætt... eins og þau séu komin á strönd. Tilkynning þess efnis að ,,regntímabilið” sé hafið heyrist. Gestir eiga um tvo valkosti að velja; að fá lánaðar regnslár eða að fara út þar til rigningunni er lokið. Eftir rigninguna, ákveða þau að setjast á græna veitingastaðnum og fá sér hressingu eins og te sem er ræktað á staðnum. Á leiðinni út koma þau við í móttökunni og taka vörurnar sem þau keyptu á markaðnum sem afgreiddar eru í umhverfisvænum umbúðum.
Vettvangur sköpunargleðinnar
Barn er að leika sér í skóginum, þar sem blóm og rennandi vatn eru í umhverfinu. Álfar eru þarna að degi til og tröll á nóttunni. Steinar verð að gimsteinum og klettar að kastala. Barninu líður eins og allt sé mögulegt. Fleiri börn drífur að og án þess að spyrja taka þau þátt í ævintýrinu. Hugarflug þeirra fer af stað ... þau klifra í trénu, láta sprek fljóta eftir læknum þau finna brum á plöntu og vita að næst þegar þau koma verður þar ávöxtur. Ávöxtur smakkast öðruvísi þegar hann á sér sögu.
ÁSKORANIR

Hvaða vanda stöndum við frammi fyrir sem ALDIN miðar að því að mæta?

Það má að mörgu leiti lýsa ástandi mannkynsins í dag þannig að rof hafi orðið á milli manns og náttúru. Þetta á ekki hvað síst við í borgarumhverfinu þar sem maðurinn stendur einn og ótengdur náttúrunni. Þessi röskun hefur leitt til loftslagsbreytinga, óhollra neysluvenja og lífstílstengdra sjúkdóma. Breytingar á veðurfari og loftslagi koma niður á vistkerfum og þar með lífsgæðum.  Þessi umhverfis- og lífstílsvandi er sprottinn af sömu rót. Ofþyngd og andlegir sjúkdómar eins og streita og þunglyndi er algengur vandi í vestrænum samfélögum.   Nútímamaðurinn sinnir mörgum hlutverkum á degi hverjum og þarf að samþætta líf sitt. Oft reynist erfitt og jafnvel yfirþyrmandi að koma öllu heim og saman og um leið að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Þrátt fyrir ómetanlegar auðlindir í formi sjálfbærra orkugjafa og hreinleika í margskonar skilningi eru Íslendingar í samanburði við aðrar þjóðir neyslufrek þjóð og með eitt stærsta vistspor þjóða á heimsvísu, samkvæmt aðferðarfræði ‘Global footprint network’.  Að meðaltali er vistspor Íslendings nálægt því að vera tvöfalt á við meðal Evrópubúa. Ómeðvitað bruðl er talin veigamikil ástæða fyrir þessari stöðu (samkvæmt Sigurður E. Jóhannesson, umhverfis- og auðlindafræðingi 2017). 

Algengasta dánarorsök Íslendinga eru krónískir sjúkdómar sem mætti draga úr með breyttum lífstíl m.a. með léttara fæði og aukinni hreyfingu.  Nú er svo komið að 27% þjóðarinnar er of þung samkvæmt grein í Læknablaðinu (júní 2019) og samkvæmt upplýsingasíðu Landlæknisembættisins (Heilsuvera.is) er stress og þunglyndi algengt meðal barna og ungmenna, en þar kemur fram að fjórðungur ungs fólks upplifir kvíða í sínu lífi og 6% þeirra eru með alvarleg einkenni. Einmanaleiki er einnig algengt vandamál einkum meðal eldri borgara.

ÁVINNINGUR

Hvaða lausnir leggur ALDIN Biodome til vandans?

ALDIN Biodome er nýr og spennandi samkomustaður í borginni sem býður upp á  endurnærandi upplifun fyrir líkama og sál, bæði fyrir gesti og starfsfólk. Hollar matjurtir og gleðjandi fegurð í umhverfinu veitir innblástur og stuðlar að jafnvægi í líf fólks. Á einum stað undir sama þaki er hægt að sinna daglegum athöfnum og njóta augnabliksins.  Móðir náttúra er töfrum gædd og með aukinni nánd við hana eykst meðvitund okkar á umhverfinu, vernd þess og sjálfbærum lífstíl.

ALDIN Biodome mun rísa miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu í jaðri Elliðaárdals, þar sem aðgengi er auðvelt eftir vistvænum leiðum með göngu- og hjólastígum í græna samgönguneti borgarinnar.  Þannig verður ALDIN tilvalinn áningarstaður fyrir fólk sem á leið hjá, bæði fyrir þá sem stunda útivist í dalnum og þá sem fara um til og frá vinnu. Samspil starfseminnar og nærumhverfisins hvetur til hreyfingar og upplifunar af náttúru, hinnar íslensku útivið og þeirrar framandi innandyra sem einkum verður kærkomið yfir vetrartímann.

Með borgarbúskap styttast flutningaleiðir til neytandans. Aukið framboð og neysla á matjurtum er jákvæður þáttur í margs konar samhengi eins og út frá minnkun kolefnisvistspors matvæla og út frá hollustuþáttum. 

Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á jákvæð áhrif náttúrunnar á heilsu og vellíðan og eru læknar og heilsuráðgjafar í vaxandi mæli að ávísa græna lyfseðlinum fyrir skjólstæðinga sína.  Sem dæmi bætir græn náttúra andlega líðan, eykur sköpunargleði og afköst. 

Í ALDIN verður til fjöldi starfa á sviði mannræktar, garðyrkju og ýmiss konar þjónustu og fræðslu.  Þar verður uppbyggjandi vettvangur fyrir nema í starfsnámi á þessum sviðum. Starfsemin mun viðhalda og skapa hagsæld fyrir samfélagið og borgina.

AÐGANGUR

Hvernig fæ ég aðgang að ALDIN Biodome?

Allir eru velkomnir í ALDIN Biodome!  Boðið eru upp á mismunandi aðgengi og gjöld eftir því hve oft fólk vill koma og hvernig það vill nýta aðstöðuna.

Garðyrkjurýmið Dalbær:  Allir eru velkomnir inn í ræktunarrýmið og á torgið án endurgjalds. Þar er hægt að sjá hvað verið er að rækta, fara á markað, veitingastað og kaffihús. Einnig er gengið þaðan inn í fræðslurými sem er hugsað fyrir skólahópa og sérviðburði.

Visthvolfin Laufás og Hraunprýði:

Best er að gerast félagi eða Vinur ALDIN gegn árgjaldi sem veitir opið aðgengi inn í visthvolfin þegar fólki hentar.  Árgjaldið mun borga sig ef komið er oftar en u.þ.b. tvisvar á ári í ALDIN. Þeir sem ekki eru félagar greiða aðgangseyri til að komast inn í visthvolfin en þegar þangað er komið geta gestir gengið um, fræðst, notið afþreyingar, tekið þátt í skipulögðum hugleiðslu- eða jógatímum eða notið þess að slaka á. Boðið er upp á sérstaka leiðsögn með sérsniðinni dagskrá gegn gjaldi.  ‘Vinir ALDIN’ njóta forgangs á viðburði á vildarkjörum. 

Athafnaklúbbur ALDIN: Þeir sem hyggjast nýta sér grænu vinnuaðstöðuna og vilja leigja fundarrými þar gerast meðlimir í Athafnaklúbbi ALDIN. Þeir greiða árgjald og skrá sig á vinnurými fyrirfram. Meðlimir klúbbsins geta tekið með sér tvo vini eða vinnufélaga án endurgjalds við hverja heimsókn og hafa þeir þá aðgang að visthvolfunum þegar þeir vilja taka sér hvíld.

STAÐSETNING

Gert er ráð fyrir lóð undir ALDIN Biodome í Reykjavík, í suðurjaðri Elliðaárdals norðan Stekkjarbakka á svæði sem kallast Langagróf.

Sjá má afmörkun lóðarinnar (nr 3) í skipulagsgögnum sem hlaut endanlegt samþykki í borgarráði 19. nóvember 2019 og lögformlegt gildi með auglýsingu í B-deild stjórnartíðanda þann 22. nóvember 2019. Hinn gamli Vatnsveituvegur liggur að Stekkjarbakkanum, sunnan þess svæðis sem lóðin skilgreinist og markar því lóðina þeim megin.  Hár bakki er við nyrðri lóðamörkin og snarbrött malarskriða en við austurmörk lóðarinnar eru samfélagsgarðar Garðyrkjufélags Íslands. Opið grænt svæði er við vesturmörk lóðarinnar og lækjarsytra í lægð.  Bakkinn eru fornir sjávarkambar og malarruðningur sem ísaldarjökull mótaði.

Um tíma var bakkinn nýtt sem malarnáma til vegagerðar í borginni en einnig voru á svæðinu þrjú býli áður fyrr;  Hraunprýði, Laufás og Dalbær.

Í þessari loftmyndaseríu má sjá hvernig svæðið hefur breyst í tímans rás, mannvirki Veitna lögð smám saman gegnum svæðið ásamt því að þar eru heitavatns borholur og malarplön tengd þeim (Vatnsveituvegurinn er sýnilegur á öllum myndum og því góður viðmiðunarpunktur).  Með tímanum hurfu býlin en Laufás var síðasti bærinn sem var rifinn árið 2013 en hann stóð næst Stekkjarbakka á lóðinni.  Í dag má sjá nokkuð há tré þar sem áður var húsagarður Laufáss.  Gróður hefur náð sér upp að einhverju leyi og sum staðar fallegur svörður með mosagróðri.

Veðursælt er á staðnum og fallegt útsýni upp eftir dalnum til austurs, yfir til Esju í norðri og í átt að miðborginni í vestur.  Kappkostað verður að varðveita gróður og græða upp ógróin svæði.

Veðursælt er á staðnum og fallegt útsýni

SAMSTARFSAÐILAR

Framúrskarandi alþjóðlegt teymi vinnur að ALDIN Biodome sem hefur reynslu, þekkingu og brennandi áhuga á verkefninu.

Arkitektar

Arkitektar

Umhverfisverkfræðiráðgjafar

Byggingaverkfræðiráðgjafar

Verkfræðistofa

Gróðursérfræðingar

Viðskiptaþróunarráðgjafar

Kostnaðar-ráðgjafar

Samtök um samtal og tengsl

Sýningarhönnuðir

PÓSTLISTI

Við sendum út póst til að segja helstu fréttir af framgangi verkefnisins og mögulega til að kalla eftir hugmyndum eða endurgjöf. Hér er getur þú skrá þig á póstlista og fengið sendar fréttir.