ALDIN BIODOME

Mannvænir og grænir staðir

Ásgeir Ingvarsson
[email protected]

Spor í sandinn er verkefni sem miðar að því að reisa gróðurhvelfingar sem hýsa sameldi á grænmeti og fiski og eru líka mikilvægur samkomustaður fyrir nærsamfélagið.

Hjördís Sigurðardóttir hefur áhugaverðar hugmyndir sem ganga út á að tvinna saman ferðaþjónustu, fiskeldi, grænmetisrækt og sköpun vistlegra samkomustaða fyrir almenning. Hún er stofnandi sprotafyritækisins Spor í sandinn og tekur þátt í Startup Reykjavík í sumar, ásamt góðu teymi sérfræðinga. „Ætlunin er að reisa svokallaðar gróðurhvelfingar (e. biodomes) í nágrenni við sundlaugar og búa þannig til sjálfbæran klasa, ræktunarstað og endurnærandi samkomustað. Við viljum skapa græna veröld allan ársins hring á norðurslóðum.“

Ræktunin aftur inn í borgina

Hjördís lærði matvælafræði og hafði starfað á því sviði í áratug þegar hún fékk áhuga á samspili umhverfismála og hönnunar. Hún skellti sér því í nám í umhverfisskipulagi við Landbúnaðarháskólann og í framhaldinu lærði hún landslagsarkitektúr og skipulag í Hollandi. Lokaverkefni hennar þar fjallaði um svokallaðan borgarbúskap í Detroit og Rotterdam. Borgarbúskapur er áhugavert fyrirbæri sem ætlað er að bregðast við ýmiskonar vandamálum, s.s. skorti á landi og auðlindum, og þeirri aftengingu sem orðið hefur milli borgarbúa og matvælaframleiðslu. Bendir Hjördís á að það heyri í dag til undantekninga að íslensk börn fari í sveit á sumrin eða aðra vinnu við frumvinnslu og mörg þeirra hafi ekki hugmynd um hvernig við búum til matinn sem ratar á diskinn. Gróðurhvelfingarnar sem Spor í sandinn hyggst byggja eiga þó ekki bara að framleiða matvæli og færa matvælaframleiðslu aftur inn í borgarsamfélagið, heldur er hugmyndin líka að skapa mannvænan samkomustað sem býður upp á veitingasölu, fræðslutengda afþreyingu um vistferla og margt fleira.

Plöntur og mannlíf blómstra í hitanum

Hjördís segist hafa fundið mjög sterkt fyrir því þegar hún kom til baka til Íslands eftir námsárin á meginlandi Evrópu hversu dempandi áhrif kuldinn gat haft á mannlífið. „Ég saknaði þess að geta átt opið samtal við fólk úti á torgum eins og gerist þegar maður er staddur á heitari slóðum. Veturinn er afskaplega langur og kemur niður á félagslegri samveru. Við Íslendingar sjáum hvað hitinn skiptir miklu máli í þessu sambandi þegar farið er í heitu pottana í sundlaugunum. Þar gerist það eins og fyrir töfra að fólk byrjar að tala saman, deila skoðunum og hugmyndum.“ Því verður í miðjum gróðurhvelfingunum markaðs- og fundaraðstaða og svæði til að setjast niður í dagsins önn. Vill Hjördís að gróðurhvelfingarnar rísi við hlið sundlauga, og helst myndi hún vilja byrja á Laugardalslaug. „Borgin vill að Laugardalur virki sem græn lungu fyrir borgarbúa og myndi þessi starfsemi hjálpa til við það og færa þá hugmynd á enn hærra stig,“ segir hún.

700.000 gestir

Ræktunin myndi nýta affallsvatn frá sundlauginni og um leið vera eins konar framlenging á því samfélagslega og afþreyingartengda hlutverki sem sundlaugar landsmanna þjóna. „Af öllum þeim stöðum þar sem ferðamenn þurfa að borga sig inn eru sundlaugarnar vinsælasti áfangastaðurinn og áætlað að ekki færri en 700.000 gestir heimsæki Laugardalslaug ár hvert. Öll þessi mikla umferð fólks virðist ekki nýtt sem skyldi, t.d. í tilviki Laugardalslaugar er fátt sem bíður fólks eftir sundsprettinn annað en pylsuvagn. Með því að tengja saman sundlaug og gróðurhvelfingar verður til rými fyrir fólk til að spjalla, kynnast og gera meira úr deginum, já og bara „vera“.“ Sér Hjördís fyrir sér að ef verkefnið gangi vel geti gróðurhvelfingar risið víða um land og verkefnið jafnvel teygt sig út í heim þar sem íbúar á norðurslóðum þurfa, rétt eins og Íslendingar, að búa við langan og kaldan vetur sem hér um bil svæfir samfélagið. Verið er að þróa og vinna í viðskiptaáætlun fyrir verkefnið sem Hjördís segir að gefi til kynna spennandi tækifæri fyrir fjárfesta. Heimasíða verkefnisins er www.sporisandinn.is.

Betri nýting með sameldi

Í gróðurhvelfingum Spors í sandinn er ætlunin að stunda svokallað sameldi. Er þá ræktað saman undir einu þaki fiskur og grænmeti. Segir Hjördís að sameldið gangi út á að stuðla að bættri nýtingu á orku og auðlindum. „Í hefðbundnu fiskeldi er oft miklu vatni hleypt út úr kerfinu sneisafullu af næringarefnum. Í sameldinu er þetta vatn notað í plönturæktina eftir að hafa farið í gegnum örverusíur svo að jurtirnar njóta góðs af næringarefnunum.“ Sameldi er í auknum mæli stundað víða um heim en svo virðist sem óvissa sé um það hvaða reglugerðir og kröfur eiga að gilda um ræktunina hér á landi. Eins er þetta nýjung í borgarumhverfinu sem hið opinbera þarf að melta, segir Hjördís. Verkefnið krefst þess að gott samtal eigi sér stað milli fjölda aðila. „Ég hef óbilandi trú á samtalinu, en til þess að þróa nýja, spennandi hluti þarf samráð að eiga sér stað þar sem menn sýna vilja, djörfung og opinn huga.“

http://sporisandinn.is/assets/150716_MBL.pdf