ALDIN BIODOME

Listræn túlkun Wilkinson Eyre arkitekta er sýnir mögulegt útlit bygginga séð frá hæsta hæðarpunkti við Reykjanesbraut. Þess má geta að ljósmyndin er tekin fyrir 3 árum og hafa tré vaxið töluvert síðan þá. 
Mynd/Spor í sandinn 2019

Til stendur að byggja gróðurhvelfingu í suðurjaðri Elliðaárdals. Málið hefur verið umdeilt en þónokkuð er um misvísandi upplýsingar um fyrirhugaða byggingu gróðurhvelfinga í Löngugróf í suðurjaðri Elliðaárdals.

Birtu misvísandi myndband frá fyrra skipulagi

Hollvinasamtök Elliðaárdals hafa meðal annars birt myndband frá því þegar verkefnið var á þróunarstigi, áður en skipulagið hlaut samþykki og eiga því alls ekki við um núverandi deiliskipulag.

Þráinn Hauksson, skipulagshöfundur deiliskipulagsins við Stekkjarbakka, bendir á í athugasemd við myndbandið að það sé frá fyrri stigum skipulagsvinnunnar þegar mátaðar voru inn mun stærri byggingar en niðurstaða endanlegs deiliskipulags fól í sér.

Kynningarmyndband

Myndir segja oft meira en mörg orð, hér sést vel hvað um er að ræða stórt svæði, hversu mikið það mun breytast og hversu stór mannvirki, bílastæði og annað verða. Skrifið undir hér: https://listar.island.is/Stydjum/56

Posted by Hollvinasamtök Elliðaárdalsins on Wednesday, February 19, 2020

Viðhalda núverandi myrkurgæðum

Nýja deiliskipulagið sem var samþykkt felur í sér verulega lækkun bygginga, fækkun bílastæða og mjög stranga skilmála er varða ljósmengun. Samkvæmt deiliskipulaginu skal viðhalda núverandi myrkurgæðum á svæðinu en andmælendur skipulagsins hafi ítrekað haldið fram öðru.

Einnig hafa Hollvinasamtökin birt myndir á Facebook síðu sinni þar sem óskað er eftir að friða svæðið en birta síðan myndir af fossinn við Indjánagil, sem er vel fyrir utan skilgreindan deiliskipulagsreit, en eins og hefur komið fram, er ekki áætlað að byggja inni í Elliðaárdalnum sjálfum.

Hvelfingarnar (ljósbláar) eru aðeins lítill hluti af heildarflatamáli skilgreinds deiliskipulagsreits (gul lína) fyrir norðan Stekkjarbakka 
Mynd/Spor í sandinn 2020

Matur beint af beði

Lóðin sem Aldin Biodome hefur fengið vilyrði með samþykktu deiliskipulagi er fyrir norðan Stekkjarbakka. Visthvolfin standa upp á 12-14 metra bröttum bakka sunnan við dalinn og verða ekki í beinni snertingu við það svæði sem nýtur hverfisverndar. Svæðið liggur einnig við hliðina á umferðargötu og stendur fyrir utan aðal göngu og hjólaleiðir í Elliðaárdalnum.

„Við erum fyrst og fremst að búa til nærandi upplifun af matjurtum og gróðri,“ segir Hjördís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri gróðurhvelfingarinnar. Hún segir allt tal, um að þarna eigi verslunarmiðstöð að rísa, sé úr lausu lofti gripið.

ALDIN Biodome skiptist í þrjá megin hluta: Ræktunarrými og torg með svokölluðu „af beði á borð“ veitingastað; heittempraða hvelfingu með vinnu- og afþreyingaraðstöðu og trópíska hvelfinga með heilsutengdri upplifun.

ALDIN Biodome hefur leyfi fyrir því að byggja mest 9 metra háar byggingar sem verða þá lágstemmdar miðað við tré á svæðinu að sögn Hjördísar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra ALDIN Biodome. Trén á svæðinu er allt að 14 metrar á hæð, einkum næst Stekkjarbakka og skilur að byggð fyrir ofan.

Listræn túlkun Wilkinson Eyre arkitekta á mögulegu samspili milli heittempruðu hvelfingarinnar og veitingastaðarins í garyrkjurýminu sem framreiðir hollan mat beint af beði. 
Mynd/Spor í sandinn 2019

Myndirnar birtust á opnum kynningarfundi í Breiðholti fyrir ári síðan þar sem íbúar gátu kynnt sér deiluskipulagið og í nýjum fréttafærslum frá skipuleggjendum. Á umræddum kynningarfundi var meðal annars rætt um að þróunarreitur væri á þegar röskuðu svæði og voru flestir á fundinum sammála um að kjörið væri að fá einhverja starfsemi á svæðið.