ALDIN BIODOME

Á þessari loftmynd sést vel fyrirhuguð uppbygging ALDIN Biodome. Lóðin er rúmlega 1,2 hektari og er hún hluti af 18 hektara þróunarreit samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sem borgin er að þróa á þessu svæði ofan við sjálfan dalinn.
Loftmynd Landslag ehf/Þráinn Hauksson og myndvinnsla WilkinsonEyre.

„Í sinni einföldustu mynd gengur hugmyndin út á það að skapa á þessum stað gróðursælt og gefandi umhverfi undir glerþökum þar sem alltaf er gott veður. ALDIN Biodome á að vera náttúrulegt orkusetur og þar eiga gestir og íbúar nærliggjandi hverfa að geta sótt í líkamlega og andlega næringu allan ársins hring. Ég tel einstakt tækifæri hér á landi til að skapa þessi skilyrði og ég er sannfærð um að starfsemin í Löngugróf, sunnan Elliðaárdalsins verði gríðarleg lyftistöng fyrir allt svæðið í kring,“ segir Hjördís Sigurðardóttir, skipulagsfræðingur og framkvæmdastjóri Spors í sandinn, sem hyggst reisa þrískipta gróðurhvelfingu í svokallaðri Löngugróf norðan Stekkjarbakka. Deiliskipulag svæðisins hefur verið samþykkt bæði í borgarstjórn og borgarráði og öðlaðist lögformlegt gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda í lok síðasta árs.


Í ALDIN Biodome verður hægt að stunda vinnu og sækja fundi og njóta afþreyingar í þægilegu loftslagi. Þar getur fólk verslað ferskar matjurtir, notið veitinga beint af beði, lært gegnum skilningarvitin, sótt jógatíma, eða bara notið fegurðarinnar og „hlaðið batteríin.“

Græna orkan

Hjördís er með BSc gráðu í matvælafræði frá HÍ en lagði einnig stund á nám í umhverfisskipulagi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Í framhaldinu lauk hún svo MSc gráðu í landslagsarkitektúr og skipulagi með áherslu á skipulag, frá Wageningen University í Hollandi. Hún segir að áherslurnar í náminu úti hafi m.a. falist í að skipuleggja umhverfið út frá því hve mikið væri hægt að spara í orku og efni með vistkerfin sem fyrirmynd, að þannig væri hægt að minnka vistspor og skapa fjölbreyttara og meira spennandi umhverfi. „Í lokaverkefninu mínu skoðaði ég svokallaðan borgarbúskap (urban farming) í tveimur stórborgum erlendis og fékk í kjölfarið áhuga á að skoða hvernig hægt væri að nýta slíka hugmyndafræði hér heima. Ég sá auðvitað að hér væru einstök tækifæri að vinna meira með jarðvarmann og alla okkar grænu orku, skapa ný og spennandi afþreyingartækifæri og svara um leið síauknum kröfum um meiri sjálfbærni, bætta lýðheilsu og almenna vellíðan. Þetta hugmyndaferli stóð yfir í nokkurn tíma og ég náði að fá til liðs við mig afburðar samstarfsaðila til að þróa hugmyndina áfram. Nú erum við komin á þann stað að hafa fengið vilyrði borgarinnar fyrir lóð í Löngugróf í jaðri Elliðaárdals, til að reisa visthvolf eða Biodomes þar sem við með hjálp jarðvarmans og gróðurlýsingar sköpum aðgang að yndislegu umhverfi allt árið um kring í hjarta borgarinnar.“ Fyrirhugaðar byggingar ALDIN Biodome samanstanda af þremur misstórum glerhvelfingum sem hýsa munu margháttaða starfsemi. Í garðyrkjurýminu verður opið torg þar sem fólk getur verslað á grænum markaði, þar verður kaffihús og veitingaaðstaða og aðstaða þar sem fólk mun geta tekið þátt í tilraunum í matjurtarækt. Í hinum hvelfingunum verða eins konar matjurta skógar í suðrænu loftslagi. Í heittempruðu hvelfingunni verður aðstaða fyrir fólk að vinna og halda fundi í grænni aðlaðandi umgjörð sem eykur sköpunargáfu og afköst. Í trópísku hvelfingunni verður aðstaða fyrir heilsutengda iðkun sem getur stuðlað að lækkuðum blóðþrýstingi og slökun. Umhverfið allt verður í bland fræðslu- og hvíldarsvæði „Þetta verður sannkallaður griðastaður þar sem öll starfsemin verður fléttuð inn í náttúrulegt umhverfi, verndað inni í glerhjúp og varið fyrir óblíðum veðrabrigðum úti fyrir,“ segir Hjördís.

Hjördís Sigurðardóttir framkvæmdastjóri: „Við höfum hlustað á gagnrýnisraddir og hönnunarteymið okkar hefur leitað frumlegra leiða til að gróðurhvelfingin falli eins vel og unnt er að nærumhverfinu. Það er algjörlega ástæðulaust að hafa áhyggjur af þessum húsum sem við ætlum að reisa.“
Bjarney Lúðvíksdóttir fyrir Spor í sandinn.


Hlustað á gagnrýnisraddir

Lóð ALDIN Biodome verður rúmlega 1,2 hektari og er hún hluti af 18 hektara þróunarreit samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sem borgin er að þróa á þessu svæði ofan við sjálfan dalinn. Samkvæmt skipulagi verða byggingar á reitnum takmarkaðar við 1-2 hæðir og gert ráð fyrir að mannvirkin verði niðurgrafin að þó nokkru leyti og felldar vel inn í landið. Hvelfingar ALDIN Biodome ná mest 9 metra hæð og ofan þeirra er trjágróður allt að 14 metra hár sem hylur þær að nær öllu leyti frá byggðinni fyrir ofan Stekkjarbakka. Í grunninn verður unnið eftir alþjóðlegum stöðlum um sjálfbærni og heilsusamleg mannvirki og yrði fyrirhuguð bygging sú fyrsta sinnar tegundar á norðurslóðum. „Við höfum hlustað á gagnrýnisraddir og hönnunarteymið okkar hefur leitað frumlegra leiða til að gróðurhvelfingin falli eins vel og unnt er að nærumhverfinu. Það er algjörlega ástæðulaust að hafa áhyggjur af þessum húsum sem við ætlum að reisa og í því sambandi vil ég t.d. minna á Árbæjarlaug sem er með glerhjúp sem er nálægt því jafn hár og sá sem við munum reisa eða allt að 7 metra háan. Ég veit ekki til þess að fólk telji þau ágætu laugarmannvirki eyðileggja Elliðaárdalinn sem útivistarsvæði.“

Ekki er annað að sjá en fyrirhugaðar byggingar með sínar mjúku línur falli vel inn í landslagið.
Myndvinnsla WilkinsonEyre (2019).



Heimsþekktir hönnuðir

Alþjóðleg menntamiðstöð garðyrkjuvísinda Hins konunglega garðyrkjusambands, RHS Garden Wisley, í Surrey á Bretlandi, hannað af WilkinsonEyre.

WilkinsonEyre arkitektar í London eru leiðandi hönnuðir ALDIN Biodome en þeir hafa mikla reynslu af slíkum mannvirkjum víða um heim. Þessir aðilar eiga m.a. heiðurinn af hönnun Gardens by the Bay í Singapúr en þar er um að ræða tvær gróðurhvelfingar sem standa í stóru og gróskumiklu grænu 100 hektara svæði. Gardens by the Bay er einn vinsælasti ferðamannastaður í Singapúr sem sýnir vistkerfi í útrýmingahættu vegna loftslagsbreytinga. Þess má geta að Gardens by the Bay hefur verið talið eitt af 10 merkustu mannvirkjum heims. „Ég tel mikið tækifæri felast í því fyrir Reykjavík að geta státað einstöku mannvirki sem hannað er af WilkinsonEyre arkitektum,“ segir Hjördís.




Jarðvarmi, fegurð og sjálfbærni

Hjördís segist sátt með staðfestu skipulagsyfirvalda og meirihlutans í borginni en á þeim sé engan bilbug að finna. „Ef allt gengur að óskum vænti ég þess að við ljúkum fjármögnun verkefnisins á haustdögum og framkvæmdir gætu hafist í byrjun næsta árs. Ég hef orðið vör við mikinn áhuga fólks á þessu verkefni og ég hlakka til þess að geta tekið þátt í að glæða hinn frábæra Elliðaárdal meira lífi. Hjá ALDIN Biodome munu verða til tugir starfstækifæra og ég er sannfærð um að ekki síst íbúar nærliggjandi hverfa munu finna sér nýjan unaðsreit í dalnum og nágrenni, þegar fram líða stundir þar sem kjörorðin verða jarðvarmi, fegurð og sjálfbærni.“

Í heittempruðu hvelfingunni verður aðstaða fyrir fólk að vinna og halda fundi í grænni aðlaðandi umgjörð sem eykur sköpunargáfu og afköst.
Myndvinnsla WilkinsonEyre (2019).

Fyrir löngu raskað svæði

Í umræðunni um fyrirhugaðar byggingar ALDIN Biodome hefur því stundum verið haldið fram að þær eigi að reisa í Elliðaárdal og gera má ráð fyrir að á þeirri forsendu hafi sumir sett sig upp á móti framkvæmdinni. Hið rétta er að umrætt svæði norðan Stekkjarbakka er skilgreint sem þróunarreitur fyrir græna starfsemi í aðalskipulagi. En sá reitur sem lóðarvilyrði ALDIN gildir um hefur á síðustu áratugum átt sér stað töluvert rask og framkvæmdir. M.a. var svæðið lengi notað sem tippur jarðefna sem koma þurfti fyrir, þar voru jarðvegsnámur lengi nýttar fyrir vegagerð og síðan hefur svæðið verið nýtt undir veitumannvirki ásamt því að þar er að finna borholur Veitna. Á svæðinu stóðu einnig þrjú býli sem nú hafa öll verið rifin. Nú stendur til að ganga frá svæðinu og koma því í skipulagt horf.

Í umsögn Þráins Haukssonar landslagsarkitekts hjá Landslagi um nýtt deiliskipulag á þróunarreit 73 við Stekkjarbakka, þegar það var samþykkt í borgarráði, kemur m.a. fram að uppbygging á svæðinu er talin hafa óveruleg áhrif á útivistargildi Elliðaárdalsins, fyrirhuguð uppbygging falli vel að landslagi og að sjónræn áhrif fyrirhugaðra bygginga verði óveruleg. Þá kemur fram að ljósmengun verður takmörkuð en ljósvist plantna í ALDIN Biodome byggir á myrkri yfir nætur og verður ljósi stýrt samkvæmt því.

Hvers konar starfsemi?

„Starfsemi sem getur verið á þróunarsvæðinu (Þ73) norðan Stekkjarbakka og hentar í nálægð útivistarsvæðisins, tengist fyrst og fremst útivist, íþróttastarfsemi eða samfélagsþjónustu, auk þess sem heimilt er að gera ráð fyrir „grænni starfsemi“, ræktun og gróðrarstöð og sem því tengist. Þá er tilgreint í B-hluta aðalskipulagsins að starfsemin geti t.d. verið grænn markaður með mat- og heilsuvörur, gróðrarstöð eða rekstur veitingastaðar og þjónustu í gróðurhúsum sem og starfsemi og uppbygging vegna félaga í garðyrkju eða gróðurtengdrar starfsemi.“

Tillagan fellur vel að landslagi

Í umsögn Landslags segir einnig að í skipulaginu sé gert ráð fyrir því að fyrirhuguð uppbygging falli vel að landslagi og umhverfi og tryggð verði góð tengsl við nærumhverfið með fyrirkomulagi nýrra stíga, gatna og opinna grænna svæða. Í tillögunni séu skilgreindar nokkrar lóðir og byggingarreitir og skilmálar útfærðir, þar sem takmarkanir eru m.a. settar á uppbyggingu, útlit og meðferð mengandi efna og ofanvatns. Þá segir og að sjónræn áhrif nýbygginga verði að teljast óveruleg, þar sem lóðir og byggingarreitir eru staðsettir ofan við náttúrulegan bakka í jaðri Elliðaárdalsins, sem veldur ekki mikilli truflun á upplifun í dalnum. Þá séu settar fram kröfur um gróður og grænt yfirbragð lóða sem munu milda ásýnd uppbyggingar á svæðinu.

Svæðið sem ALDIN Biodome hyggst byggja á norðan Stekkjarbakka hefur um langa hríð verið í uppnámi og m.a. nýtt sem jarðefnatippur. Það hefur því verið býsna óhrjálegt svo ekki sé meira sagt.
Ljósmynd Rögnvaldur Gunnlaugsson og myndvinnsla WilkinsonEyre.

Tekið tillit til athugasemda

Frá því fyrstu hugmyndir komu fram um uppbyggingu ALDIN Biodome á þróunarreitnum voru ýmsar breytingar gerðar á útfærslu hugmyndanna í meðferð skipulagsog samgönguráðs borgarinnar. M.a. voru byggingareitir færðir frá bakkabrún dalsins, nær Stekkjarbakka og hæð fyrirhugaðra hvelfinga var lækkuð úr 15 metrum niður í 9 metra hæð yfir landi með því að grafa húsin niður í jörðina. Allir skilmálar um ljósmengun og meðhöndlun ofanvatns voru hertir frá því sem áður var.

Hvenær verður slökkt á kvöldin?

Margir höfðu áhyggjur af því að hvelfingarnar við Stekkjarbakka yrðu eins og upplýst framleiðslugróðurhús, líkt og sjá má í Hveragerði og víðar. Í ALDIN Biodome er ætlunin að rækta Miðjarðarhafs- og miðbaugsgróður þar sem ljósvist plantna byggir á myrkri yfir nóttina og verður ljósi stýrt samkvæmt því. Í greinargerð með deiliskipulaginu eru mjög ítarlegir skilmálar til að tryggja núverandi myrkurgæði, ljósvist verður vöktuð og áskilið að við gerð lóðarsamnings verði skerpt á því hvernig tryggt verði að ekki stafi ljósmengun af uppbyggingunni.

Þetta snið af svæðinu sýnir vel hversu fyrirhugaðar byggingar neðan Stekkjarbakka liggja lágt í landinu. Sniðteikning úr skipulagsgögnum.
Myndvinnsla Landslag ehf og WilkinsonEyre.


Valþór Hlöðversson, Sóknarfæri, september 2020.

https://issuu.com/ritform/docs/soknarfaeri_framkv_3_2020_90 (bls. 34-36)