ALDIN BIODOME

Hjördís Sigurðardóttir hefur unnið að því að koma upp borgargarði í fimm ár en persónuleg reynsla hennar hefur haft áhrif á verkefnið. Fréttablaðið/Valli

Hjördís hefur unnið í um fimm ár að undirbúningi borgargarðsins ALDIN Biodome sem samþykkt hefur verið að rísi í Löngugróf í suðurjaðri Elliðaárdals. Loks virðist sjá fyrir endann á verkefninu sem töluverður styr hefur staðið um.

En hver er þessi stórhuga kona sem barist hefur fyrir því að reistur verði yfirbyggður garður innan borgarinnar með það að markmiði að þar fari fram matjurtaræktun í gróðursælu umhverfi og borgarbúar geti þar sótt sér andlega sem líkamlega næringu?

„Ég er alin upp í sveit, nánar tiltekið að Kastalabrekku í Ásahreppi, og hafði uppvöxturinn í sveitinni mikil áhrif á persónu mína. Ég lærði síðar matvælafræði og starfaði við gæðastjórnun í matvælaiðnaðinum í um áratug. Áhugi minn fór svo að beinast frekar að samspili manns og umhverfis og hvernig umhverfið hefur áhrif á líðan okkar.“

Hjördís ákvað því að bæta við sig menntun í umhverfisskipulagi við Háskólann á Hvanneyri og segir það hafa opnað sýn sína á margt. „Ég lærði betur á sjálfa mig en á þessum tíma fór ég einnig í gegnum erfiðan skilnað.“ Eftir útskriftina hélt Hjördís utan í MSc-nám í landslagsarkitektúr og skipulagi við Wageningen-háskóla í austurhluta Hollands.

„Ég lærði betur á sjálfa mig en á þessum tíma fór ég einnig í gegnum erfiðan skilnað.“


Í meistaranám erlendis ein með fjögur börn

Börn Hjördísar voru þá 5, 7, 13 og 15 ára og viðurkennir hún að það hafi verið áskorun að rífa sig upp ein með ung börn en það hafi hjálpað sér að ofhugsa það ekki á þeim tímapunkti.

„Það var visst frelsi fólgið í því að komast í burtu. Þetta var mjög erfiður skilnaður sem tók á okkur öll og því var gott að skipta alfarið um umhverfi. Það gekk mjög vel úti og námið hjálpaði mér að halda fókus enda var ég að púsla saman fjölmörgum hlutum og með margt á minni könnu.

Börnin æfðu fótbolta og um helgar var ég í því að keyra þau á leiki í öðrum bæjum. Þess á milli stóð bíllinn kyrr og maður fór hjólandi allra sinna ferða,“ rifjar Hjördís upp og segist hafa kynnst umhverfi sínu á allt annan hátt en þegar ekið er á milli staða.


Brotnaði saman yfir ósóttu rusli

Hjördís segir að börnunum hafi gengið vel á nýjum stað og þau þurft að læra tungumálið á stuttum tíma enda gengið í barnaskóla sem sérhæfði sig í kennslu tvítyngdra barna með fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn. Hollendingar tóku fjölskyldunni vel en á köflum var álagið eðlilega mikið.

„Ég man eftir einu augnabliki þegar ég hafði haft ansi margt á minni könnu, enda að mörgu að huga við að koma sér inn í nýtt samfélag. Það var komið að rusla-afhendingardegi sem var einu sinni í viku en þá átti maður að fara með flokkaðar tunnur út á gangstétt. Ég var búin að passa þetta vel – hver ruslategund með sinn afhendingardag. Þegar ég kom svo heim úr skólanum var mín tunna ein eftir ótæmd. Ég bara brotnaði saman og fór að gráta,“ rifjar Hjördís upp hlæjandi. „Það þurfti ekki meira til á þessum tímapunkti.“

Borgargarðinum ALDIN – Biodome er ætlað að rísa í Löngugróf í suðurjaðri Elliðarárdals. Garðinum er ætlað að bjóða upp á heilandi upplifun innan um gróður allan ársins hring. Mynd/Spor í sandinn/Wilkinsoneyre Architects


Hugmyndin spratt úr kúrs í náminu

Hjördís segir einn kúrsinn í náminu hafa haft sérlega mótandi áhrif á sig. „Þá fengum við sem hópur í hendurnar eyju sem við áttum að skipuleggja út frá hámarksnýtingu orku og efnis, með því að stilla saman orkuuppsprettu og orkunýtingu hlið við hlið og loka þannig öllum ferlum. Þetta var ótrúlega áhugavert verkefni í anda hringrásarhagkerfisins. Undir lok þess gerði ég rannsókn á borgarbúskap, eða „urban farming“, í Detroit og Rotterdam.

Á þessum tíma voru haldnar ráðstefnur um hvort borgir gætu fætt sig sjálfar, framleitt sjálfar matvæli fyrir íbúa sína og stuðlað þannig að meiri sjálfbærni. Þetta vakti mikinn áhuga hjá mér og ekki síst landnotkunarsiðfræðin sem lögð var áhersla á. Þegar ég kortlagði þessa ferla sýndu niðurstöður að áhrifin á samfélagið væru gríðarlega jákvæð. Í framhaldinu gat ég ekki hætt að hugsa hvernig þetta gæti passað okkur Íslendingum. Þegar maður býr erlendis og sér Ísland úr fjarlægð lærir maður mikið um landið sitt ekki síður en sjálfan sig, áskoranir og tækifæri.“


Þegar maður býr erlendis og sér Ísland úr fjarlægð lærir maður mikið um landið sitt ekki síður en sjálfan sig, áskoranir og tækifæri.


Reynslan sem aðstandandi hafði áhrif

Hugmyndin að borgargarðinum þróaðist í huga Hjördísar og hún sótti um þátttöku í Startup Reykjavík viðskiptahraðlinum árið 2015 og var samþykkt sem þátttakandi. Þá fór boltinn að rúlla.

Samkvæmt heimasíðu ALDIN Biodome er ætlunin að bjóða upp á stað þar sem hægt verður að nýta tímann til íhugunar, fræðslu, versla með ferskar matjurtir beint af beði, njóta á kaffihúsum og fleira. Hugmyndin er að fólk kaupi sér aðild að garðinum og lofar Hjördís hófstilltu verði. „Aðild ætti að kosta um það bil tíu sinnum minna en aðgangur í líkamsræktarstöð. Ég sé fyrir mér að þetta geti verið staður þar sem til dæmis eldra fólk getur farið í göngu innandyra eftir fallegum leiðum þegar það kannski treystir sér ekki út í veturinn.“

Hjördís bendir einnig á að kvíði sé sífellt að verða algengari meðal ungs fólks og það sé hennar markmið að garðurinn verði uppbyggjandi og róandi staður. „Þessi fimm ár frá því að hugmyndin að verkefninu kviknaði hef ég jafnframt verið aðstandandi einstaklings með fíkni- og geðröskun og það hefur haft mikil áhrif á þróun ALDIN Biodome og löngun mína til að vinna að vellíðan fólks.“


„Þessi fimm ár frá því að hugmyndin að verkefninu kviknaði hef ég jafnframt verið aðstandandi einstaklings með fíkni- og geðröskun og það hefur haft mikil áhrif á þróun ALDIN Biodome og löngun mína til að vinna að vellíðan fólks.


Strangir staðlar um sjálfbærni

Ég var svo heppin að vorið 2017 var skrifuð grein um verkefnið, eftir að ég fékk verðlaun frá Alþjóðlegum samtökum uppfinningakvenna og frumkvöðla. Þar fékk ALDIN Biodome viðurkenningu sem framúrskarandi samfélagsverkefni og nýsköpun og þá opnuðust dyrnar að alþjóðlegu hönnunarteymi. Þetta fólk hefur gert svipaða hluti áður, þau hafa ástríðu fyrir verkefninu og það er svo sannarlega gefandi að vinna með svoleiðis fólki.“

Hjördís segir verkefnið falla einkar vel að sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. „Hönnunarteymi okkar hefur reynslu af svipuðum verkefnum og munum við vinna það út frá ströngum stöðlum um sjálfbærni og heilsusamleg mannvirki. Það mun tryggja að við séum að gera vel á sem flestum sviðum, bæði í uppbyggingu og í framhaldinu í rekstri.“


Gagnrýni á framkvæmdirnar

Hugmyndin hefur mætt mismiklum skilningi og hafa tilteknir hópar lýst yfir áhyggjum af atriðum eins og mögulegri ljósmengun og nálægð byggingarinnar við Elliðaárnar. „Ég lít á þetta sem eðlilegan hlut sem gert er ráð fyrir í skipulagsferli og ég hef hlustað mjög vel á gagnrýni og hönnunarteymið brugðist við henni þannig að hún hefur að mörgu leyti bætt verkefnið.

Til lengri tíma litið held ég að flestir geti fundið sig sem einhvers konar sigurvegara. Byggingin verður utan verndarsvæðis Elliða­árdalsins og á ekki að hafa nein áhrif á ána. Verkefnið er í eðli sínu byggt á sjálfbærnimarkmiðum á öllum sviðum, svo að það að skaða umhverfið væri í hreinni andstöðu við markmið þess. Við ætlum að bæta umhverfið – á öllum sviðum. Við elskum Dalinn og viljum styðja við hann og gera betri.“

Hjördís segir að ljósmengun muni ekki verða vandamál enda ræktunin mikið niðurgrafin. „Hátækniræktun verður undir torfþaki og því truflar lýsingin frá henni ekkert.“


„Ég lít á þetta sem eðlilegan hlut sem gert er ráð fyrir í skipulagsferli og ég hef hlustað mjög vel á gagnrýni og hönnunarteymið brugðist við henni þannig að hún hefur að mörgu leyti bætt verkefnið.


Mótstaðan hefur tekið á

Hjördís segir hægagang stjórnsýslunnar oft geta reynst frumkvöðlum erfiður og mótstaðan hafi jafnframt tekið á. „Þetta hefur oft verið erfitt og ég hef alveg orðið vonsvikin en þá hjálpar að vera með gott samstarfsfólk, fjölskyldu og vini sem virka hreinlega eins og áttavitar og beina manni í réttar áttir.

Ég viðurkenni að síðasta sumar rakst ég á vegg og orkan var eiginlega búin. Ég þurfti að fá hjálp og var vel fram á haustið að ná mér.“ Hjördís þurfti að hægja á taktinum og til dæmis hætta að hlaupa og fara frekar í langa göngutúra úti við. Hún leitaði bæði til læknis og sálfræðings og hlær að því að aldrei hafi neitt neikvætt komið út úr blóðprufunum.

„Það er svo skondið hvernig við erum alltaf í þessu áþreifanlega en svo er það kannski bara sálin sem gerir líkamann þreyttan. Sálin þarf svo mikinn stuðning í þessum nútíma heimi og það á ALDIN Biodome að gera – að hlúa að sálinni. „Ég viðurkenni að þetta tók á, ég er mannleg og er svona að ná dampi núna.“


Höfuðstöðvar Amazon innblástur

Hjördís segist hafa sótt töluverðan innblástur til Biosphere-höfuðstöðva Amazon í Seattle, „Workplace of the Future“.

„Það er gróðursæll vettvangur fyrir starfsmenn Amazon, en þeir hafa opið fyrir almenning vissa daga í mánuði, því fólk langar að sjá og upplifa. Einnig er Eden Project í Cornwall mjög mikill innblástur ásamt Gardens by the bay í Singapore sem mínir arkitektar hönnuðu. Svo eru mörg smærri verkefni í Hollandi jafnframt að þróast þar sem matvælaræktun er færð nær fólki án óþarfa-umbúða.“


„Það er gróðursæll vettvangur fyrir starfsmenn Amazon, en þeir hafa opið fyrir almenning vissa daga í mánuði, því fólk langar að sjá og upplifa.

Aðspurð hvað drífi hana áfram svarar Hjördís: „Þessi löngun til að skapa heilbrigðara borgar-umhverfi. Jákvæða leið til að lifa. Ég hef fundið hversu gott það er að geta fengið stuðning til að hugsa vel um sig, borða vel og gera vel. Það er bara frekar flókið og ég hef trú á að ALDIN geti verið griðastaður fyrir svo marga í þessu sambandi.“

Hvað með gróðasjónarmið?
„Þau drífa mig ekki áfram þó verkefnið verði að vera arðbært, það er partur af sjálfbærnihugtakinu. En hins vegar er ég búin að leggja allt undir og verð að fá það til baka, fyrir mig og börnin mín.“

Nú þegar tilskilin leyfi eru komin segist Hjördís bjartsýn á að klára fjármögnun innan fjögurra mánaða. „Þá taka við um fjórir til sex mánuðir í að klára alla hönnunarvinnu og loks ætti uppbyggingin að taka um tvö ár. „Ég er bjartsýn á að við getum opnað í upphafi árs 2023.“

https://www.frettabladid.is/frettir/hefur-lagt-allt-undir/