ALDIN BIODOME

Hjördís Sigurðardóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri ALDIN Biodome. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Spor í sandinn er þróunaraðili ALDIN Biodome sem í framtíðinni mun bjóða upp á upplifun sem byggir á margbreytilegri matjurtaræktun, bæði utandyra við Elliðaárdal og inni í loftlagsstýrðum og umhverfisvænum mannvirkjum.

Rannsóknarverkefnið ALDIN-garðurinn fer nú fram þriðja árið í röð.

„Nú þegar höfum við aflað okkur mikilvægrar þekkingar á því hvernig við getum breytt hitastigi jarðvegs og með því uppskorið í sumum tilfellum margfalt meira magn matjurta, samanborið við hefðbundna ræktun utandyra,“ segir Hjördís Sigurðardóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri ALDIN Biodome.

Hjördís, sem stofnaði ALDIN árið 2015, er með BS-gráðu í matvælafræði og umhverfisskipulagi og MS-gráðu í skipulagsfræði frá Wageningen-háskólanum í Hollandi. Hún er jafnframt stundakennari í faginu við Landbúnaðarháskóla Íslands.

ALDIN Biodome séð frá Stekkjarbakka. Teikning: WilkinsonEyre Architects

Nota affallsvatn úr Stekkjunum

ALDIN Biodome hlaut fyrst styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna (NSN) árið 2015.

„Styrkurinn var til að rannsaka nýtingu affallsvatns sundlaugarinnar í Laugardal í þeim tilgangi að hita upp gróðurhvelfingar og skapa þar sjálfbæran klasa. Gerð var greining á fýsileika þessa út frá nokkrum skilgreindum þáttum og var hún mjög jákvæð. Við hlutum svo aftur styrki árin 2020 og 2021 til að gera rannsókn á nýtingu lítils hluta affallsvatns sem fellur í fráveitu frá Stekkjahverfi í Breiðholti. Með affallsvatninu hitum við upp ræktunarbeð utandyra og lengjum þannig ræktunartíma margs konar matjurta, en gerum það einnig mögulegt að rækta suðrænar plöntur utanhúss,“ greinir Hjördís frá.

ALDIN Biodome hlaut jafnframt framhaldsstyrk fyrir sömu tilraun í ALDIN-garðinum.

„Þá unnum við frekari rannsóknir og skoðuðum velgengni ræktunar í hituðum beðum og á fjölbreyttari tegundum matjurta og trjáa. Góðar tilraunir vekja alltaf upp margar spurningar, um leið og svör, og þannig er það í okkar tilfelli,“ segir Hjördís.

Hjördís Sigurðdardóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri ALDIN Biodome.

Styrkur frá NSN hjálpar

Að mati Hjördísar eru styrkir úr Nýsköpunarsjóði námsmanna í senn gæðavottun og hvatning til að vinna rannsóknir á vísindalegan og vandaðan hátt.

„Fyrir áhugasama nemendur og fyrirtæki með góðar hugmyndir hjálpar styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til við að hrinda rannsókn í framkvæmd. Tilraunagarðurinn veitir sömuleiðis innblástur fyrir samfélagið og fólk í hinu byggða umhverfi til að nýta betur vannýtta auðlind og huga að margbreytilegri og spennandi matjurtaræktun. Þannig verður til þekking á meðal fólks og samræðuvettvangur á sviði matjurtaræktunar,“ útskýrir Hjördís.

Sem leiðbeinandi í rannsóknarverkefnum segir hún alltaf við nemendur sína að það sé frumskilyrði að velja sér rannsóknarverkefni sem þeir hafi mikinn áhuga á.

„Ef svo er, og nemandi er duglegur og hæfur, getur rannsókn skilað framúrskarandi niðurstöðu. Það gerðist hjá okkur í febrúar á þessu ári, þegar Karen R. Róbertsdóttir garðyrkjunemi hlaut viðurkenningu forseta Íslands fyrir öndvegisverkefni. Karen er umsjónarmaður ræktunartilraunarinnar, hún sér um mælingar og mat niðurstaðna, skrifar allar skýrslur og leggur til framhaldsrannsóknir. Vönduð rannsóknarvinna mun svo alltaf skila sér í meiri þekkingu og færni viðkomandi, og um leið meira spennandi tækifærum,“ segir Hjördís.

Hér má sjá ýmsar tegundir plantna sem ræktaðar voru í tilraunagarði ALDIN Biodome sumarið 2022. Mynd: HJÖRDÍS SIGURÐARDÓTTIR

Alþjóðlegt lífsstílsfyrirtæki

Starfsemi í gróðurhúsum ALDIN Biodome er fyrirhuguð í Löngugróf sunnan Elliðaárdals, þar sem tilraunagarðurinn hefur verið starfræktur síðastliðin ár. Kjarnastarfsemin er ræktun og upplifun tengd henni, en umtalsvert affallsvatn, um 27 til 30°C, fellur frá nærliggjandi hverfi beint frá fráveitu og síðan viðtaka.

„Í framtíðinni verður hægt að ímynda sér hvernig fjölbreytt og áhugaverð ræktun verður til í loftlagsstýrðu umhverfi undir hvelfingum. ALDIN Biodome mun tvímælalaust vekja heimsathygli enda sé ég framtíðina þannig að ALDIN verði alþjóðlegt lífsstílsfyrirtæki sem þjónustar sístækkandi hóp sem leitar að tengslum við náttúruna og dýpri skilningi á töfrum hennar,“ segir Hjördís.

Sjá upprunalega frétt á heimasíðu Fréttablaðsins.