ALDIN BIODOME

Fiskeldi og ylrækt við hlið sundlauga?

Reyðfirðingurinn Aron Leví Beck vinnur þessa dagana að rannsókn, þar sem forsendur fyrir því að starfrækja svokallað sameldi (e. aquaphonics) við hlið sundlauga á Íslandi eru kannaðar. Aron Leví er byggingafræðingur og meistaranemi í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann leysti af hjá hitaveitunni í Fjarðabyggð síðastliðið sumar.

„Sameldi er það kallað þegar maður er að rækta einhverja hluti, t.d. grænmeti og þú ert með fiskeldi líka á sama stað og notar affallsvatnið af fiskunum yfir á grænmetið. Þá verður til náttúrulegur áburður, úrgangurinn úr fiskinum, sem hægt er að nýta við grænmætisræktina,“ segir Aron í samtali við Austurfrétt.

Fyrirtækið sem Aron vinnur með heitir Spor í sandinn og er sprotafyrirtæki sem var stofnað af Hjördísi Sigurðardóttur. Fyrirtækið hefur unnið að þróun hugmyndarinnar „Sjálfbær gróðurhús í hjarta borgarinnar“ en það verkefni byggir á þyrpingu þriggja til fjögurra gróðurhvelfinga sem samhverfast um almenningssvæði eða torg og mynda eina heild. 

Hugmyndin gerir ráð fyrir því að á staðnum verði hægt að kaupa afurðir ræktuninnar og jafnframt að þar verði upplýsingamiðstöð, þar sem hægt verði að fræðast um verkferlana.

Austurland væri flottur kostur
Aron segir fyrirtækið helst hafa horft til þess að byggja upp starfsemi í Laugardal, ef hugmyndin nær fram að ganga. „Við höfum verið að stefna á Laugardalinn og þetta fellur rosalega vel inn í stefnu Reykjavíkurborgar. Það eru byrjaðar einhverjar samræður við Reykjavíkurborg en við erum opin fyrir því að starfsemin verði hvar sem er. Ég tel að Austurland væri til dæmis alveg flottur kostur,“ segir Aron, en á heimasíðu fyrirtækisins kemur einnig fram að leitað sé að mögulegum stöðum til að þróa gróðurhvolfa-lauga klasa.

Að sögn Arons er ástæðan fyrir því að horft er til þess að starfrækja sameldið við sundlaugar sú að þar sé umframorka, affallsvatnið, sem megi nýta. Einnig séu sundlaugar fjölfarnir staðir og því sé gott að ná til fólks við sundlaugar. „Við Íslendingar erum ekki með svona torgastemningu og það mætti í raun segja að sundlaugarnar séu okkar torg, þar sem fólk kemur saman,“ segir Aron.

Sjálfbærni er eitt af einkennisorðum verkefnisins. „Málið er taka einhverja starfsemi sem er orkufrek eins og sundlaug og byggja upp einhverja minni starfsemi við hlið hennar og stuðla þannig að betri orkunýtingu. Við Íslendingar megum alveg leita leiða til að spara vatn, þó að við eigum nóg af vatni. Það er í lögmálum varmafræðinnar að þú getur hvorki tekið burt eða búið til orku úr heiminum og þá maður verður stundum að leggja hausinn í bleyti og hugsa aðeins út fyrir boxið,“ segir Aron.

Nánar má fræðast um verkefnið á vefsíðu Spor í sandinn

Mynd: Starfsmenn Spor í sandinn. Aron Leví er lengst til hægri.

https://www.austurfrett.is/frettir/3794-fiskeldi-og-ylraekt-vidh-hlidh-sundlauga