ALDIN BIODOME

Fréttir GREIN Í SUMARHÚSIÐ OG GARÐURINN, RÓS Í HNAPPAGATIÐ

Gróðurhvelfingar sem mynda vistvæna klasa með sundlaugum, fjölnota torg, verslun, veitingar, sameldi, fiðrildagarður og kerfisbundin endurnýting er meðal þess sem er á teikniborði Hjördísar Sigurðardóttur skipulagsfræðings. Grænn heimur á norðurslóðum – allan ársins hring er yfirskrift hugmyndafræði verkefnisins Biodome Reykjavík sem Hjördís stýrir. Hún er stofnandi sprotafyrirtækisins Spor í sandinn sem í vor var valið, meðal níu annarra, til þátttöku í frumkvöðlahraðlinum Startup Reykjavík, sem haldinn er á vegum Klak Innovit og Arion banka. Sumarhúsið og garðurinn gefur Spori í sandinn rós í hnappagatið fyrir snjalla hugmynd sem hefur aukin lífsgæði að leiðarljósi.

Hugmynd Hjördísar gengur út á að byggður verði klasi af gróðurhvelfingum við hlið Laugardalslaugar í Reykjavík og í þeim skapað vistvænt umhverfi. Gert er ráð fyrir að byggð verði ein stór miðhvelfing sem minni hvelfingar ganga út frá. Alls um 1500 fermetrar „Í gróðurhvelfingunum sé ég fyrir mér margs konar starfsemi en meginstoðin er framleiðsla matvæla og starfssemi tengd henni, svokallaður borgarbúskapur. Stóra miðhvelfingin verður eins konar gróskumikið og hlýtt markaðstorg og opið öllum. Fólk getur notið þess að vera þar innan um grænan gróður allan ársins hring, sest niður á veitingastað og einnig keypt sér grænmeti og krydd sem ræktað er á staðnum. Í minni hvelfingunum verða matjurtirnar meðal annars framleiddar, þar verður ákjósanleg aðstaða fyrir fræðslu og jafnvel fiðrildagarður. Sameldi er áhugaverður möguleiki sem við erum að skoða, þ.e. fiskeldi og ylrækt í sama kerfi þar sem næringarlausn frá fiskeldinu er nýtt fyrir grænmetis- og kryddjurtarækt og hugsanlega ávaxtarækt,“ útskýrir Hjördís. Hún segir að í skammdeginu sem við Íslendingar búum við gætu gróðurhvelfingarnar, með grænu umhverfi, birtu og yl, verið kærkomin vin frá kulda og myrkri. „Hvelfingar sem þessar myndu auka lífsgæði fólks og verða nokkurs konar græn paradís allt árið. Það er tími til kominn að sýna hvernig við getum notað þekkingu á auðlindum okkar og hugvit til að þróa nærumhverfið svo eftir sé tekið.“

AUKIN LÍFSGÆÐI OG FERÐAÞJÓNUSTA

Verkefnið segir Hjördís vera sterkt samfélagslega þó að markmiðið sé einnig að skapa arðbæran rekstur byggðan á vistvænum lausnum. Hún fékk hugmyndina eftir að hafa dvalið við nám í Hollandi ásamt börnum sínum. Þar sótti hún grænmetismarkaði tvisvar í viku og hennar nánasta umhverfi var grænt og vænt. „Lífsgæðin þar eru mikil. Hollendingar eru ræktendur í eðli sínu og ég upplifði það að þrátt fyrir að umhverfið sé mun manngerðara þar, þá fannst mér ég vera nær náttúrunni en hér á Íslandi. Umhverfisvitund Íslendinga er almennt ekki góð. Ég er hrædd um að margt ungt fólk hafi ekki hugmynd um hvernig maturinn ratar á diskinn. Í gróðurhvelfingunum getum við fært þekkinguna nær fólki.“ Hjördís er menntaður matvælafræðingur og starfaði við fagið um árabil. Allt þar til hún venti sínu kvæði í kross og lærði umhverfisskipulag við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Til Hollands sótti hún svo meistaragráðu í skipulagsfræðum. Auk þess að sinna þróunarvinnunni við Spor í sandinn hefur hún komið að kennslu í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskólann í vetur. Við þróun verkefnisins hefur hún fengið til liðs við sig öflugt teymi til að vinna að frekari útfærslu hugmyndarinnar. „Ég sé verkefnið sem svar við tveimur þáttum; bættum lífsskilyrðum og nýjan áhugaverðan valkost í ferðaþjónustu.“

LAUGARNAR ERU TORGIN OKKAR

Aðspurð segir Hjördís markhópinn vera til jafns Íslendingar og erlendir ferðamenn. „Við vitum að sundlaugarnar heimsækir ótrúlegur fjöldi gesta á ári hverju, bæði innlendir sem útlendir. Sundlaugarnar eru torgin okkar. Í Laugardalslaugina koma 700 þúsund gestir á ári. Með því að tengja gróðurhvelfingarnar laugunum er búin til eins konar framlenging á þessari stemningu og einnig sýnidæmi um bætta nýtingu á vatninu – og kynning á þeirri auðlind sem heita vatnið er.“

FRÁ HUGMYND AÐ FRAMKVÆMD

Hugmynd Hjördísar hefur verið kynnt víða og fengið góðar undirtektir. Hún þykir bæði spennandi og öðruvísi og hefur hún fundið fyrir mikilli hvatningu. Hjördís kynnir nú hugmyndina fyrir fjárfestum og á í viðræðum við Reykjavíkurborg um mögulega staðsetningu gróðurhvelfinganna og er Laugardalurinn efstur á blaði. „Í skipulagi er rætt um Laugardalinn sem græn lungu borgarinnar. Hugmyndin um gróðurhvelfingarnar styður þá stefnu með aukinni grósku og umhverfisgæðum fyrir alla. Hún passar inn í aðalskipulag borgarinnar sem vill styðja við nýsköpun, sjálfbært umhverfi og sterkt samfélag.“

http://sporisandinn.is/assets/ros.pdf