Gróðurhvelfingar rísi í Löngugróf
Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa auglýst nýtt deiliskipulag fyrir þróunarsvæðið Stekkjarbakki Þ73.
Hugmyndir eru um gróðurhvelfingar. Skilmálar eiga að tryggja að ljósmengun frá starfsemi á svæðinu verði innan marka. „Búið er að mæla núverandi ljósmengun á svæðinu sem er í dag töluverð og ólíklegt að hún aukist mikið,“ segir í kynningu.
Skýringaruppdráttur; þrívíddarmynd þar sem sést í átt að lóð 3 frá göngustíg í Elliðaárdalnum Teikning Landslag
„Þetta yrði ljós í myrkrinu“
Í fréttatilkynningu á Facebook-síðu Spora í sandinn segir:
Nýtt deiliskipulag fyrir þróunarreit í aðalskipulagi (þ73) í Löngugróf norðan Stekkjarbakka og sunnan þeirra marka sem skilgreindu hugmyndir um „borgargarðinn“ Elliðaárdal, hefur verið samþykkt til auglýsingar, í borgarráði 10 janúar og borgarstjórn í gær 15, janúar. Í skipulaginu, sem nú fer í opna kynningu, er gert ráð fyrir að ALDIN Biodome rísi.
Hjördísar Sigurðardóttur frumkvöðull og framkvæmdastjóri verkefnisins segir á Facebook:
„Ég er afskaplega ánægð með yfirlýstan stuðning kjörinna fulltrúa og vil ég þakka fyrir uppbyggileg innlegg. Þetta verður einstakt verkefni sem stuðlar að auknu jafnvægi í líf okkar, einkum yfir dimma vetrarmánuðina. Í ALDIN Biodome verður gestum boðið upp á fjölbreytta náttúruupplifun undir samfelldum hvolfþökum. Okkar reynda hönnunarteymi hefur lagt fram tillögur að útfærslum hvelfinganna þannig að þær falli sem best að landslagi og umhverfinu í kring en verði að sama skapa fallegt og aðlaðandi kennileiti. Eftir fjögurra ára sleitulausa vinnu, sem er drifin áfram af þeirri sýn að nauðsyn sé að bæta tengingu okkar við náttúruna og koma á betra jafnvægi inn í annasamt líf okkar, er þessum áfanga náð. Ég óska eftir stuðning sem flestra við þetta samfélagsjákvæða framtak.“
„ALDIN Biodome verður gróðursælt umhverfi undir glerþökum þar sem íbúar og gestir geta sótt ýmiskonar þjónustu og upplifanir í þægilegum hita og gróðurilm allt árið. Markmiðið er að fólk geti sótt sér orku í ALDIN Biodome en jafnframt sinnt fjölbreyttum verkefnum daglegs lífs. Þar verður hægt að stunda vinnu og sækja fundi, versla á grænum markaði og njóta afþreyingar. Þá er hugað að heilsunni t.a.m með ljósameðferð og hugleiðslujóga. Einnig verða í ALDIN Biodome veitingastaðir og kaffihús sem framreiða matvæli beint af beði. Þá verður lögð áhersla á aðlaðandi útisvæði og fallega gróðurframvindu í kringum mannvirkin. Markhópur verkefnisins er manneskjan, óháð stétt eða stöðu, búsetu eða uppruna.
Þróunarreiturinn er í svokallaðri Löngugróf, á röskuðu svæði á suðurjaðri Elliðaárdals sem liggur á tiltölulega háum bakka, séð frá dalnum. Um er að ræða forna sjávarkamba mótaða af ísaldarjökli. Áður fyrr voru þar óskráð býli (m.a. Laufás og Hraunprýði) og um tíma malarnáma sem nýtt var í vegagerð í borginni. Um svæðið liggja flest öll mannvirki Veitna, þar með talinn Vatnsveituvegur og nokkrar heitavatns borholur.
Elliðaárdalur er eitt stærsta og verðmætasta útivistarsvæði borgarinnar sem laðar að fólk á öllum tímum ársins Hönnunarteymið hefur leitað leiða til að fyrirhuguð mannvirki falli eins vel og unnt er að umhverfinu, að tekið sé mið af sjónarmiðum mismunandi aðila og að framkvæmdin bæti núverandi umhverfi. Í þróunarferlinu verður unnið eftir alþjóðlegum stöðlum um sjálfbær og heilsusamleg mannvirki.
„Í raun er verið að skapa suðrænt loftslag fyrir tilstilli jarðhitans á Norðurslóðum með nýsköpun í nýtingu orkuauðlindarinnar,“ segir Hjördís Sigurðardóttir. „Inni í hvelfingunum verður gróður sem dafnar í slíku loftslagi. Gert er ráð fyrir að mannvirkin verði niðurgrafin að hálfu leyti og mótuð inn í landið, nái mest 9 m hæð og njóti skjóls frá trjám og gróðri í kring“.
Deiliskipulagið hefur verið í þróun í tvö ár og er það því mikilvæg varða á leiðinni að markinu að það sé nú komið í kynningu. Á auglýsingatímanum, sem er samkvæmt skipulagslögum 6 vikur, geta allir kynnt sér skipulagsgögn, forsendur og framtíðarsýn. Á tímabilinu verður verkefnið kynnt á opnum fundi með íbúum. Í núverandi áætlunum er miðað við að ALDIN Biodome opni fyrir gesti snemma árs 2021,“ segir á Facebook.
Skýringaruppdráttur; þrívíddarmynd þar sem sést í átt að lóð 3 frá Hamrastekk. Teikning Landslag
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/01/18/grodurhvelfingar_risi_i_longugrof/