ALDIN BIODOME

Níu metra há gróður­hvelfing rísi nærri Elliðar­ár­dal

Í nýju deili­skipu­lagi sem nú er til kynningar er gert ráð fyrir níu metra hárri gróður­hvelfingu nærri Elliðar­ár­dalnum. Gert er ráð fyrir að gróður­hvelfingin, Aldin Biodome, verði opnuð gestum árið 2021. Þar verður hægt að sækja ýmissa þjónustu sem miðar að bættri líðan í þægi­legum hita 

Ínýju deiliskipulag fyrir þróunarreit í Löngugróf norðan Stekkjarbakka nærri Elliðarárs sem nú er í opinni kynningu er gert ráð fyrir því að svokölluð gróðurhvelfing, Aldin Biodome, rísi. Deiliskipulagið hefur verið samþykkt bæði í borgarstjórn og borgarráði til auglýsingar.

„Ég er afskaplega ánægð með yfirlýstan stuðning kjörinna fulltrúa og vil ég þakka fyrir uppbyggileg innlegg. Þetta verður einstakt verkefni sem stuðlar að auknu jafnvægi í líf okkar, einkum yfir dimma vetrarmánuðina. Í ALDIN Biodome verður gestum boðið upp á fjölbreytta náttúruupplifun undir samfelldum hvolfþökum,“ segir Hjördís Sigurðardóttir frumkvöðull og framkvæmdastjóri verkefnisins í tilkynningu frá fyrirtækinu Spor í sandinn sem sér um framkvæmd verkefnisins.

Í tilkynningu kemur fram að í Aldin Biodome verði gróðursælt umhverfi undir glerþökum þar sem gestir geti sótt sér ýmiss konar þjónustu og upplifanir í þægilegum hita og gróðurilm allt árið í kring. Markmiðið með gróðurhvelfingunni er að fólk geti sótt sér orku og jafnframt sinnt fjölbreyttum verkefnum daglegs lífs. Þar verður meðal annars hægt að sækja fundi, stunda vinna, versla á grænum markaði og njóta ýmissar afþreyingar. Þá er einnig stefnt á að þar verði í boði ljósameðferð og hugleiðslujóga.

Lögð verður áhersla á „aðlaðandi útisvæði og fallega gróðurframvindu í kringum mannvirkin.“

Þjónusta sem miðar að vellíðan

Hjördís Sigurðardóttir, frumkvöðull og framkvæmdastjóri verkefnisins segir í samtali við Fréttablaðið að ekki sé enn búið að gera samninga en þau hafi skýrar hugmyndir um hvað eigi að vera í boði inni í gróðurhvelfingunni. Það sé gert ráð fyrir ýmissi þjónustu sem miði að bættri líðan og vellíðan á ýmsan hátt í ramma gróðurs og yndislegs umhverfis.

„Það er ekki búið að gera neina samninga en við höfum mjög skýrar hugmyndir um hvað á að vera þarna inni og að það eigi að vera fjölbreytilegt. Núna er unnið að nánari hönnun hörðum höndum. Þetta er gríðarlaga mikilvæg varða í því öllu saman og þá er leiksviðið betur skilgreint,“ segir Hjördís.

Ljósameðferðin sem dæmi segir Hjördís að eigi að láta fólki líða vel og gæti nýst fólki með gigt, depurð eða skammdegisþunglyndi. Lýsingin þar inni sé öðruvísi en lýsing fyrir til dæmis plöntur.

„Það verður ákveðið svæði nýtt í þetta sem verður einhvers konar heilsustúdíó,“ segir Hjördís.

Mest í níu metra hæð

Fram kemur í tilkynningunni reiturinn sem Aldin Biodome kemur til með að rísa á er í svokallaðri Löngugróf, á röskuðu svæði á suðurjaðri Elliðaárdals sem liggur á tiltölulega háum bakka, séð frá dalnum. Skipulagsreiturinn er um 18 hektarar í heild en 

lóð Aldin Biodome verður 12.027m2.

Umfang bygginga verður samkvæmt skipulagi takmarkað við eina eða tvær hæðir og er gert er ráð fyrir að mannvirkin verði niðurgrafinn að hálfu leyti og mótuð inn í landið. Þau munu að mestu ná níu metra hæð og munu njóta skjóls frá trjám og gróðri í kring.

Mannvirkið fyrsta sinnar tegundar á norðurslóðum

Hjördís segir að hönnunarteymið hafi leitað leiða til að gróðurhvelfingin falli eins vel og unnt er að umhverfinu og að tekið sé mið af sjónarmiðum mismunandi aðila og að framkvæmdin bæti núverandi umhverfi. Í þróunarferlinu öllu er unnið eftir alþjóðlegum stöðlum um sjálfbær og heilsusamleg mannvirki.

„Mannvirkið er fyrsta sinnar tegundar á norðurslóðum og er hönnuð út frá alþjóðlegum stöðlum um sjálfbærar og heilsusamlegar byggingar. Það er mikil áhersla lögð á gæði í þessu verkefni,“ segir Hjördís.

Hjördís segir að allir munu geta heimsótt gróðurhvelfinguna en einhverja þjónustu þurfi að greiða sérstaklega fyrir.

„Það verður bland. Einhver svæði þarf að greiða aðgang að þar sem fólk er að borga fyrir einhverja ákveðna upplifun en á ekkert verði greitt fyrir að fara á grænan markað, kaffihús eða annað slíkt,“ segir Hjördís að lokum. 

Sömu hönnuðir og að Gardens by the Bay í Singapúr

WilkinsonEyre arkitektar í London eru hönnunarteymi verkefnisins en þeir hafa mikla reynslu af slíkum mannvirkjum og eru leiðandi hönnuðir Gardens by the Bay í Singapúr sem er af mörgum talið eitt metnaðarfyllsta mannvirki í heimi. 

Innan gróðurhvelfingarinnar í Singapúr eru þrír aðskildir garðar á hundrað hektara svæði. Þar er að finna stærsta gróðurhús í heimi.

Gardens by the Bay er einn vinsælasti ferðamannastaður í Singapúr og voru sem dæmi fjölmörg atriði tekin upp þar í rómantísku gamanmyndinni Crazy Rich Asians sem kom út á síðasta ári.

Áætlað að halda íbúafundi

Deiliskipulagið hefur verið í þróun í tvö ár og segir Hjördís það mikilvæga vörðu í ferli að það sé nú komið í almenna kynningu. Á auglýsingatímanum, sem eru um sex vikur, geta allir kynnt sér öll gögn, forsendur og framtíðarsýn. Þá er áætlað að verkefnið verði kynnt á opnum fundi með íbúum.

Skipulagsgögn og uppdrættir vegna Aldin Biodome eru aðgengileg hér á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á Facebook-síðu Spor í sandinn.

Fyrst var greint frá því að gróðurhvelfingin yrði á 18 hektara svæði. Það er rangt. Allur skipulagsreiturinn er 18 hektara en svæði Aldin Bio verður 12.027m2.Leiðrétt klukkan 12:07.