ALDIN BIODOME

Það má að mörgu leiti lýsa ástandi mannkynsins í dag þannig að það hafi orðið rof á milli manns og náttúru, maðurinn stendur einn og ótengdur náttúrunni í borgarumhverfinu. Röskun á jafnvægi milli manns og náttúru hefur leitt til loftslagsbreytinga, óhollra neysluvenja og lífstílstengdra sjúkdóma.


Breytingar á veðurfari og loftslagi koma niður á vistkerfum og þar með lífsgæðum. Þessi umhverfis- og lífstílsvandi er sprottinn af sömu rót. Ofþyngd og andlegir sjúkdómar eins og streita og þunglyndi er algengur vandi í vestrænum samfélögum. Nútímamaðurinn sinnir mörgum hlutverkum á degi hverjum og þarf að samþætta líf sitt. Oft reynist erfitt og jafnvel yfirþyrmandi að koma öllu heim og saman og um leið að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða.


Þrátt fyrir ómetanlegar auðlindir í formi sjálfbærra orkugjafa og hreinleika í margskonar skilningi eru Íslendingar í samanburði við aðrar þjóðir neyslufrek þjóð og með hvað stærst vistspor þjóða á heimsvísu samkvæmt aðferðarfræði ‘Global footprint network’. Að meðaltali er vistspor Íslendings nálægt því að vera tvöfalt á við meðal Evrópubúa. Ómeðvitað bruðl er talin veigamikil ástæða fyrir þessari stöðu (samkvæmt Sigurður E. Jóhannesson, umhverfis- og auðlindafræðingi 2017).


Algengasta dánarorsök Íslendinga eru krónískir sjúkdómar sem mætti draga úr með breyttum lífstíl m.a. með léttara fæði og aukinni hreyfingu. Nú er svo komið að 27% þjóðarinnar er of þung samkvæmt grein í Læknablaðinu (júní 2019). Og samkvæmt upplýsingasíðu Landlæknisembættisins (Heilsuvera.is) er stress og þunglyndi algengt meðal barna og ungmenna, en þar kemur fram að fjórðungur ungs fólks upplifir kvíða í sínu lífi og 6% þeirra eru með alvarleg einkenni. Einmanaleiki er einnig algengt vandamál einkum meðal eldri borgara.