ALDIN BIODOME

Frumkvöðull ALDIN Biodome er Hjördís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri.


Ég er drifin áfram af þeirri ástríðu að hafa áhrif til betri framtíðar. Ég er alin upp í íslenskri sveit, hef samt búið víða, bæði innanlands og erlendis. Ég man svo vel eftir vornóttunum í sveitinni þegar mamma mín vakti fram eftir til að sinna garðinum sínum. Man ennþá lyktina, friðinn og töfrana þá vornætur, bragðið af ný-uppteknum gulrótum og næpum sem ég borðaði beint upp úr garðinum. Ég hef alltaf sótt í náttúruna til að finna frið, ég elska plöntur og dreymir um að eiga gróðurhús.


Ég bjó í Hollandi í þrjú ár frá árinu 2010 – 2013. Þá var ég í meistaranámi í landslagsarkitektúr og skipulagi við Wageningen University en ég er löggiltur skipulagsfræðingur. Ég er einstæð móðir og ég settist þar að með börnin mín fjögur á meðan á náminu stóð. Þetta var mjög lærdómsríkur tími, bæði hvað námið varðar og því að kynnast nýju landi og menningu þess og að öðlast nýtt sjónarhorn á sitt eigið land úr fjarska. Sýn mín varð skýr á þau tækifæri sem felast í grænu orkunni sem við búum að og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir varðandi óstöðugt veðurfar, lífstíl og sjálfbærni.


Ég er með BS gráðu sem matvælafræðingur og sem umhverfisskipulagsfræðingur en lokaritgerðinni minni í meistaranáminu reyndi ég að tvinna þessum faggreinum saman með því að skoða dæmi um borgarbúskap. Í þeirri vinnu kviknaði fyrst hugmyndin að ALDIN Biodome verkefninu sem hefur síðan þróast og þroskast. Sjálfbært skipulag, stytting flutningsvegalengda og hugmyndafræði hringrásar, þar sem allt efni er nýtt, voru áherslurnar í náminu, ásamt því að stuðla að líflegu og heilsusamlegu umhverfi fyrir manneskjuna.


Ég vann í rúmt ár á teiknistofu eftir að ég kom heim og þá mest að verkefnum sem tengdust skipulagi á áfangastöðum ferðamanna. Þá varð mér ljóst hve mikill vöxtur var í ferðamannaiðnaðinum sem í dag er ein mikilvægasta atvinnugreinin á landinu.


Eitt leiddi af öðru og ég var farin að vinna við að þróa verkefnið síðla árs 2014 og sótti um í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík árið 2015 með hugmyndina og fyrirtæki mitt Spor í sandinn ehf. Á því ferðalagi kynntist ég lykilfólki sem vinnur enn að verkefninu í dag. Við hófum þá samtal við Reykjavíkurborg um mögulega staðsetningu fyrir verkefnið en vilyrði fyrir núverandi staðsetningu fékkst haustið 2016 við Stekkjarbakka með fyrirvara um samþykki deiliskipulags, en formleg deiliskipulagsvinna fór af stað í byrjun árs 2017 í samstarfi við Reykjavíkurborg og Landslag teiknistofu.


Verkefnið hlaut tilnefningu til Evrópskra nýsköpunarverðlauna (EUWIIN/GWIIN) vorið 2017 og sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi nýsköpun með samfélagsjákvæð áhrif. Í kjölfarið hófst samstarf við WilkinsonEyre arkitekta í London, sem eru leiðandi hönnuðir á sviði loftslagsstýrðra mannvirkja. Þá hefur úrvalshópur ráðgjafa gengið til liðs við verkefnið. Bæði mannvirki og starfsemi ALDIN eiga að standast ströngustu kröfur varðandi sjálfbærni og heilsusamlega eiginleika (BREEAM og WELL).


Fjöldi kynninga og vinnustofur hafa verið haldnar fyrir samstarfs- og hagsmunaaðila síðastliðin ár. Við þróun hugmyndafræðinnar hefur verið hlustað á ábendingar og brugðist við því með nýjum og bættum útfærslum. Mikilvægum áfanga var náð er deiliskipulagið var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur þann 4. júlí 2019. Þá voru liðin fjögur og hálft ár síðan ég steig mín fyrstu skref inn í verkefnið og tvö og hálft ár voru liðin frá því að skipulagsvinnan hófst.


Gert er ráð fyrir að vinna við framkvæmdir geti hafist árið 2020 og að ALDIN Biodome opni fyrir gesti rúmum tveimur árum síðar.