ALDIN BIODOME

Gert er ráð fyrir lóð undir ALDIN Biodome í Reykjavík, í suðurjaðri Elliðaárdals norðan Stekkjarbakka á svæði sem kallast Langagróf. Sjá má afmörkun lóðarinnar (nr 3) í skipulagsgögnum sem samþykkt voru í borgarráði 4. júlí 2019. Hinn gamli Vatnsveituvegur liggur að Stekkjarbakkanum, sunnan þess svæðis sem lóðin skilgreinist og markar því lóðina þeim megin. Hár bakki er við nyrðri lóðamörkin og snarbrött malarskriða en við austurmörk lóðarinnar eru samfélagsgarðar Garðyrkjufélags Íslands. Opið grænt svæði er við vesturmörk lóðarinnar og lækjarsytra í lægð. Bakkinn eru fornir sjávarkambar og malarruðningur sem ísaldarjökull mótaði.

Um tíma var bakkinn nýtt sem malarnáma til vegagerðar í borginni en einnig voru á svæðinu þrjú býli áður fyrr; Hraunprýði, Laufás og Dalbær. Í meðfylgjandi loftmyndaseríu má sjá hvernig svæðið hefur breyst í tímans rás, mannvirki Veitna lögð smám saman gegnum svæðið ásamt því að þar eru heitavatns borholur og malarplön tengd þeim (Vatnsveituvegurinn er sýnilegur á öllum myndum og því góður viðmiðunarpunktur). Með tímanum hurfu býlin en Laufás var síðasti bærinn sem var rifinn árið 2013 en hann stóð næst Stekkjarbakka á lóðinni. Í dag má sjá nokkuð há tré þar sem áður var húsagarður Laufáss. Gróður hefur náð sér upp að einhverju leyti og sum staðar fallegur svörður með mosagróðri.

Veðursælt er á staðnum og fallegt útsýni upp eftir dalnum til austurs, yfir til Esju í norðri og í átt að miðborginni í vestur. Kappkostað verður að varðveita gróður og græða upp ógróin svæði.